Ríkisstjóri Kaliforníu hefur fyrirskipað óháða rannsókn á hvers vegna mikilvægir brunahanar tæmdust í slökkvistarfi í gróðureldunum sem nú geisa. Getty-miðstöðin, sem geymir yfir 100 þúsund málverk, var rýmd í gærkvöld.
Hætta er á að fatlað fólk leiti síður réttar síns fyrir dómstólum eftir að tímabundin breyting var gerð á fyrirkomulagi réttindagæslu þeirra. Þetta segir yfirlögfræðingur réttindagæslu.
Fuglainflúensa hefur greinst í öðrum ketti hér á landi. Litlar líkur eru á að veiran smitist í fólk.
Samninganefndir kennara, ríkis og sveitarfélaga ræða áfram saman í dag og reyna hver í sínu lagi að finna viðræðunum farveg. Þær sigldu í strand í gær.
Þúsundir söfnuðust saman í mótmælum í Seoul í Suður-Kóreu, ýmist með eða á móti nýlega brottreknum forseta. Hann beitti öryggisvörðum til að forðast handtöku í síðustu viku.
Gular viðvaranir vegna veðurs taka gildi á stórum hluta landsins í nótt. Ísstíflur eru í ám víða um land og geta þær flætt yfir bakka sína vegna hláku og rigningar.
Ísland og Svíþjóð mætast öðru sinni í vináttulandsleik í handbolta karla í dag. Leikurinn er lokaleikur íslenska liðsins áður en haldið verður á heimsmeistaramótið sem hefst í næstu viku.