Vararíkissaksóknari segist ekki hafa gengið of langt í ummælum sínum um hælisleitendur. Hann gagnrýnir ákvörðun ríkissaksóknara sem hefur óskað eftir að honum verði vikið úr starfi og segir það fráleitt.
Auknar líkur eru á eldgosi á Reykjanesskaga á næstu dögum að mati vísindamanna. Skjálftavirkni eykst jafnt og þétt og um leið hægist á landrisi.
Þriðja barnið hefur látist af sárum sínum eftir grimmilega stunguárás í Southport á Englandi í gær. Fimm börn og tveir fullorðnir eru enn í lífshættu.
Minnst tveir eru látnir og tugir hafa verið handteknir í mótmælum gegn Nicolas Maduro forseta Venesúela sem er sakaður um kosningasvindl. Sumir mótmælendur gengu marga kílómetra úr fátækrahverfum og fjallaþorpum.
Oddvitinn í Skaftárhreppi segir mikilvægt að tryggja varaleið þegar hringvegurinn lokast eins og gerðist á laugardag. Eina varaleiðin, Fjallabaksleið nyrðri, er illfær flestum bílum á sumrin.
Fjörutíu og átta sjálfboðaliðar á öllum aldri tóku þátt í Selatalningunni miklu á Norðvesturlandi um helgina. Samkvæmt heildarmati frá 2020 er selastofninn á válista.
Ólafsvaka varð til þess að lífi grindhvalavöðu var þyrmt í Færeyjum í gær. Íbúar voru uppteknir við að skemmta sér og enginn tími til veiða.
Blóðbankinn biður fólk að gefa blóð í aðdraganda verslunarmannahelgarinnar. Sjúklingar sem þurfa blóð fara ekki í sumarfrí, segir deildarstjóri í bankanum.