Þrír menn sem höfðu kynmök við andlega fatlaða konu að áeggjan yfirmanns hennar eru ekki ákærðir fyrir að nauðga henni. Yfirmaðurinn er ákærður fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn henni um árabil og aðalmeðferð í máli hans hófst í morgun.
Ísraelsher reynir að veikja varnir komandi stjórnar í Sýrlandi með stórfelldum árásum á hernaðarmannvirki. Fjölmargir sýrlenskir flóttamenn hafa snúið aftur heim úr nágrannaríkjum síðustu daga.
Sex vinnuhópar skipaðir fulltrúum Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins funda stíft um helstu málaflokka í tengslum við ríkisstjórnarmyndunarviðræður.
Formaður Eflingar segir að 22 fyrirtæki hafi þegar boðað úrsögn sína úr SVEIT, samtökum fyrirtækja á veitingamarkaði eftir að Efling boðaði aðgerðir gegn aðildarfyrirtækjum samtakanna í gær.
Verði af byggingu sorpbrennslu í Reykjanesi gæti hún séð Reykjanesbæ fyrir heitu vatni. Stjórn Sorpu hefur ákveðið að taka þátt í stofnun undirbúningsfélags um sorpbrennslu.
Formaður Samtaka hernaðarandstæðinga segir uppbyggingu hernaðarmannvirkja á Miðnesheiði sláandi og kallar eftir að hún fái þinglega meðferð.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir bætti Íslandsmetið í 100 metra skriðsundi í morgun og tryggði sér um leið þátttökurétt í undanúrslitum heimsmeistaramótsins.