Ísraelsher ætlar að rýma byggðir nærri Gaza svæðinu og forsætisráðherra Ísraels segir fólk þurfa að búa sig undir langt og erfitt stríð. Níu hundruð hið minnsta hafa fallið í Ísrael og Gaza síðasta sólahringinn. Gærdagurinn var sá blóðugasti í Ísrael í hálfa öld.
Yfir tvö þúsund eru látin eftir jarðskjálfta í Afganistan í gær. Erfiðlega gengur að skipuleggja hjálparstarf og óttast er um afdrif margra sem grafnir eru í húsarústum.
Það haustar hressilega í vikunni, rignir, hvessir og kólnar. Gular viðvaranir taka gildi fyrir suðvestanvert landið vegna úrhellisrigningar í nótt og viðvaranir vegna norðan storms fyrir allt landið fyrir þriðjudag.
Umferðarslysum erlendra ferðamanna á vegum landsins hefur fækkað. Sérfræðingur hjá Samgöngustofu segir að leggja þurfi áherslu á bílbeltanotkun í fræðsluefni til ferðamanna.
Svifryksmælar sem voru settir upp á Akureyri í febrúar, eru enn ónothæfir. Heilbrigðiseftirlit Norðurlands eystra segir áríðandi að Akureyringar fái traustar upplýsingar um loftgæði fyrir veturinn.
Íbúakosning um sameiningu Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps hefst í fyrramálið. Kosningarnar verða með óhefðbundnum hætti. Bæði hafa ungmenni niður í sextán ára aldur kosningarétt, auk þess sem íbúar geta óskað eftir að kjósa í sérútbúnum kosningabíl.