Drjúgur hluti allra kvenna og kvára á landinu leggur niður störf í dag til að vekja athygli á launamun kynjanna og kynbundnu ofbeldi. Samstöðufundir eru haldnir í öllum landshlutum.
Verkfallið hefur áhrif á mestallan vinnumarkaðinn. Leik- og grunnskólar eru víða lokaðir, aðeins eitt bankaútibú á landinu er opið og þjónusta fyrirtækja og stofnana er víða skert.
Ein af forsprökkum Kvennafrídagsins 1975 segir að stærsti munurinn þá og nú sé að áður fyrr hafi ekkert verið rætt um kynbundið ofbeldi.
Tæplega fimm þúsund og átta hundruð manns hafa látið lífið á Gaza ströndinni, síðan átök Hamas og Ísraelsmanna brutust út fyrr í þessum mánuði, segja heilbrigðisyfirvöld á Gaza. Hamas samtökin slepptu í gær nokkrum gíslum sem teknir voru í innrás samtakanna í Ísrael sjöunda október og unnið er að lausn fleiri.
Hrossaræktandi á Héraði kom að reiðhesti sínum dauðum og telur að hann hafi verið skotinn til bana um helgina. Lögregla rannsakar málið.
Erfitt er að meta hvort og þá hve mikið fjárhagstjón hafi orðið vegna ónógs undirbúnings þegar heildarsamningur um hugbúnaðarlausnir fyrir ríkisstofnanir var gerður fyrir fimm árum. Þetta segir ríkisendurskoðandi.