Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Austfjörðum til miðnættis og gul viðvörun fram eftir nóttu. Nokkrar skriður hafa fallið á Austfjörðum eftir úrhellisrigningu í nótt en ekkert tjón orðið svo vitað sé. Á Seyðisfirði er enn hættustig í gildi og rýmingar.
Öflugur vindstrengur á gjöreyðilagði hús á Siglufirði í gærkvöld. Íbúar á Norðurlandi og Vestfjörðum furða sig á því að ekki hafi verið gefnar út veðurviðvaranir á fleiri svæðum vegna hvassviðris og úrkomu.
Rannsókn lögreglu á máli Alberts Guðmundssonar landsliðsmanns í fótbolta er lokið. Albert var kærður við kynferðisbrot í síðasta mánuði. Ákærusvið lögreglunnar ákveður nú næstu skref.
Deila indverskra og kanadískra stjórnvalda stigmagnast. Kanadískum diplómata hefur verið gert að yfirgefa Indland eftir að indversk stjórnvöld voru sökuð um aðild að morði í Kanada.
Takmarkað eftirlit er með fyrirtækjum sem hafa milligöngu um heilbrigðisþjónustu erlendis. Embætti landlæknis sér einungis um eftirlit á Íslandi.
Margt bendir til þess að mannskæð árás á markað í litlum bæ í austurhluta Úkraínu fyrir tveimur vikum hafi verið slysaskot eldflaugar Úkraínuhers. Árásin átti að beinast að herliði Rússa. Þetta er niðurstaða rannsóknar bandaríska blaðsins New York Times.
Hlutfall karlkyns umsækjenda í hjúkrunarfræðinám hefur aldrei verið jafn hátt og nú. Tuttugu og sex karlar voru innritaðir í hjúkrun HÍ og HA í ár.