Mikið tjón varð þegar eldur kviknaði í raðhúsi í Fossvogi í nótt og mildi þykir að engan hafi sakað. Þetta er annar eldsvoðinn sem verður í íbúðarhúsi um helgina.
Önnur atkvæðagreiðsla lækna vegna verkfalls er hafin. Afstaða ríkisins til verkfallsins verður til þess að aðgerðir fara fram á öllum deildum Landsspítalans á sama tíma, verði ekki samið fyrr.
Enginn marktækur munur er á fylgi Donalds Trump og Kamölu Harris í sex af sjö sveifluríkjum Bandaríkjanna þar sem úrslit forsetakosninganna ráðast að líkindum á þriðjudag. Í Arizona hefur Trump nokkuð forskot, en í Norður Karólínu og Georgíu virðist Harris hafa styrkt stöðu sína.
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála vísaði frá kæru náttúruverndarsamtaka vegna umdeildrar skógræktar nærri Húsavík, þar sem framkvæmdin hafði ekki verið tilkynnt til Skipulagsstofnunar. Samtökin telja þetta setja hættulegt fordæmi, vilji sveitarfélög komast hjá umhverfismati.
Níutíu prósentum Íslendinga finnst refsingar fyrir nauðgunarbrot vera of vægar. Þetta kemur fram í niðurstöðum nýrrar rannsóknar um afstöðu fólks til refsidóma.
Önnur umferð forsetakosninga í Moldóvu fer fram í dag. Kjósendur þurfa að velja á milli sitjandi forseta sem vill aðild að Evrópusambandinu eða fyrrum saksóknara sem kýs heldur nánara samstarf við Rússland.