Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ætlar að bjóða sig fram til formanns Sjálfstæðisflokksins á morgun. Guðrún Hafsteinsdóttir segist íhuga framboð alvarlega. Guðlaugur Þór Þórðarson tilkynnir um sína ákvörðun fljótlega.
Ísraelsk stjórnvöld segja Hamas-samtökin hafa brotið skilmála vopnahléssamningsins með því að sleppa hermönnum á undan almennum borgurum. Hamas-samtökin slepptu fjórum ísraelskum hermönnum úr haldi í morgun.
Atvinnuvegaráðherra segir aflabrest í loðnuveiðum vonbrigði enda blasi töluvert tekjutap við. Hún býst við að fylgja niðurstöðu Hafrannsóknarstofnunar um að leyfa ekki loðnuveiðar í vetur. Lokaniðurstaða leiðangurs stofnunarinnar liggur fyrir um næstu helgi.
Ríkisstjórnin ætlar að ráðast í bráðaaðgerðir til að mæta erfiðri stöðu á leigumarkaði eins fljótt og auðið er. Leiguverð hækkaði um tæp þrettán prósent á síðasta ári á sama tíma og almennt verðlag hækkaði um tæp fimm prósent.
Oft er auglýst eftir matráðum í skóla og heilbrigðisstofnanir, þrátt fyrir að matartæknar séu sérstaklega menntaðir í þessar stöður. Þetta segir formaður Kjalar, stéttarfélags starfsmanna í almannaþjónustu.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta þarf að treysta á önnur úrslit til þess að komast í 8-liða úrslit á heimsmeistaramótinu. Ísland tapaði með sex mörkum fyrir Króatíu í gær og sigur gegn Argentínu á morgun dugir nú ekki.