Litlar líkur eru á vaxtalækkun í næsta mánuði eftir að verðbólga mældist aftur meiri en sex prósent. Verðbólgan fór undir sex prósent í síðasta mánuði,í fyrsta sinn í tvö og hálft ár.
Hátt í eitt hundrað kílómetrar af þjóðvegum landsins, sem eru með klæðingu, þyrftu að vera malbikaðir miðað við umferðina. Þetta segir framkvæmdastjóri hjá Vegagerðinni.
120 hið minnsta voru drepin í árás Ísraelshers á borgina Khan Younis á Gaza og 150 þúsund manns hafa flúið þaðan. Búist er við fjölmennum mótmælum í Washington þegar forsætisráðherra Ísraels ávarpar bandaríska þingið síðar í dag.
Nýjasta útgáfan af ChatGPT-spjallmenninu talar betri íslensku en þær fyrri. Það fékk sex komma sex á erfiðu íslenskuprófi.
Hundruð mótmæltu við pólska þingið í gær og kröfðust breytinga á lögum um þungunarrof. Ríkisstjórn Póllands mistókt að koma í gegn frumvarpi sem átti að milda lögin sem eru í gildi.
Stjórn Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, hefur kært vararíkissaksóknara. Samtökin telja framferði og tjáningu hans grafa undan trausti til embættisins.
Tilvísunum til Geðheilsumiðstöðvar barna hefur fjölgað um 160 prósent frá 2020; þess eru dæmi að börn þurfi að bíða í tvö ár eftir þjónustu.
Tveir dagar eru þar til Ólympíuleikarnir í París verða settir, en keppni hefst þó í dag. Anton Sveinn McKee sundmaður keppir fyrstur Íslendinga á leikunum og dreymir um gull.