Bjarni Benediktsson hefur sagt af sér embætti fjármálaráðherra. Þetta gerir hann í ljósi álits frá umboðsmanni Alþingis - að Bjarna hafi brostið hæfi til að samþykkja sölu á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Skapa verði frið um störf ráðuneytisins og sér sé ókleift að starfa áfram.
Afsögn Bjarna veikir ríkisstjórn, sem þegar stendur höllum fæti segir stjórnmálafræðingur. Leiðtogar stjórnarandstöðuflokka segja ákvörðun Bjarna koma á óvart en niðurstaða umboðsmanns geri það ekki.
Minnst 770 Palestínumenn hafa látið lífið í loftárásum Ísraela á Gaza síðan á laugardag og á fimmta þúsund særst. Ísraelsher gerir linnulausar loftárásir og talið er að innrás á Gaza sé í undirbúningi.
Misvísandi skilaboð Evrópusambandsins í gær um stuðning við Palestínumenn eru merki um skiptar skoðanir aðildarríkja um viðbrögð við árás Hamas á Ísrael um helgina.
Flugvél á vegum utanríkisráðuneytisins lenti á Keflavíkurflugvelli snemma í morgun. Um borð voru tæplega 150 manns, Íslendingar, Norðmenn, Færeyingar og Norðmenn sem flúðu átökin í Ísrael.
Karlalið Vals er á miklum skriði í úrvalsdeildinni í handbolta. Liðið lék í gærkvöld sjötta leik sinn í haust og vann sjötta sigurinn.