Gos eða kvikuhlaup getur hafist nærri Grindavík hvenær sem er. Skjálftavirkni hefur aukist um helgina og líkist virkni dagana fyrir síðasta gos. Verktakar moka í varnargarða í kappi við tímann.
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna freistar þess að fá forsætisráðherra Ísraels til að semja um vopnahlé á Gaza. Þriggja tíma fundur þeirra í morgun er sagður hafa verið jákvæður.
Aldrei hafa fleiri starfsmenn hjálparsamtaka verið drepnir en í fyrra. Sameinuðu þjóðirnar vara við því að stríðið á Gaza gæti leitt til þess að enn fleiri yrðu drepnir á þessu ári
Vinstri græn tóku skarpa beygju til vinstri og skýra beygju frá málamiðlunum í ríkisstjórnarsamstarfinu, á flokksráðsfundi um helgina, segir Eiríkur Bergmanna stjórnmálafræðiprófessor. Hann segir að þingið verði stíflað í stórum ágreiningsmálum í haust.
Tryggingarfélög óttast að tjón hljótist af þegar Veitur loka fyrir Suðuræð í kvöld. Heitavatnslaust verður á stórum hluta höfuðborgarsvæðisins í um einn og hálfan sólarhring.
Enn er mótmælt á Indlandi eftir að læknanema var nauðgað og hún myrt. Þúsundir lækna neita að koma aftur til vinnu fyrr en öryggi þeirra verður tryggt.
Spáð er óbreyttum stýrivöxtum þegar peningastefnunefnd Seðlabankans ákveður framhaldið.
Það var napurt hjá tjaldbúum í nótt. Á Þingvöllum var tveggja stiga frost og sumstaðar snjóaði til fjalla. Skálavörður í Laugafelli segir að flestallir gestir hafi flúið inn í skála að orna sér.