Bandaríkin bættust í morgun í hóp meira en fimmtíu ríkja sem ætla að loka öllum kolaorkuverum fyrir árið 2035. Ákvörðun Bandaríkjastjórnar er sögð marka tímamót í loftslagsbaráttunni og setur mikinn þrýsting á Kínverja, sem eru stórtækastir í kolabrennslu á heimsvísu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði loftslagsráðstefnuna í Dubai í morgun. Hún segir að ríki heims þurfi að leggja miklu meira af mörkum og ættu að einblína á hætturnar sem felast í loftslagsbreytingum.
Tæplega fjórföld eftirspurn var eftir hlutabréfum Ísfélagsins í útboði sem lauk í gær. Ísfélagið er þriðja sjávarútvegsfyrirtækið sem er skráð á markað en fyrir eru Síldarvinnslan og Brim.
Fjárlaganefnd Alþingis leggur til enn frekari aðhald í ríkisrekstri til að bregðast við breyttum efnahagsforsendum. Enn sé beðið eftir tillögum frá ríkisstjórn vegna óvissuástands á Reykjanesskaga.
Vegagerðinni bárust fimmtíu tilkynningar um brotnar rúður eftir að lögð var klæðning á veg milli Sauðárkróks og Skagastrandar. Ekki er talin sama hætta á steinkasti á veginum í dag.
Jólagjafasöfnun Kringlunnar hefur aldrei farið jafn hægt af stað og í ár. Beiðnum fjölskyldna um aðstoð fyrir jólin hefur aftur á móti fjölgað mikið á milli ára
Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta vann mikilvægan sigur á Wales í Þjóðadeild Evrópu í gærkvöld og kvennalandslið Íslands í handbolta mætir Ólympíumeisturum Frakklands á HM í Noregi í dag.