Dregið hefur úr krafti eldgossins sem hófst á Sundhnúksgígaröðinni í gærkvöld. Dökkur gosmökkur stígur upp þegar kvika kemst í snertingu við vatn. Gosið sést vel frá Reykjanesbraut og dæmi eru um að fólk gangi að gosinu illa búið.
Gæsluvarðhalds verður krafist síðar í dag yfir manni sem handtekinn var í gær, grunaður um að eiga hlut að andláti hjóna í Neskaupstað. Rannsókn lögreglu beinist meðal annars að því hvort vopni hafi verið beitt við verknaðinn.
Flytja þurfti í morgun fimmtíu skólabörn til byggða sem voru á ferð að Fjallabaki þegar fimmtán þeirra veiktust. Þetta er í annað sinn sem hópsýking kemur upp í hálendisferðum í mánuðinum.
Flætt hefur inn í kjallara í minnst sex húsum á Siglufirði í miklu vatnsveðri. Dæla í fráveitukerfi er biluð og önnur hefur ekki undan.
Kamala Harris hét því að verða forseti allra Bandaríkjamanna og varaði við afleiðingum ef andstæðingur hennar, Donald Trump, næði kjöri í kosningunum fimmta nóvember. Fjögurra daga landsfundi Demókrata lauk í gærkvöldi.
Óskar Örn Hauksson, leikjahæsti fótboltamaður efstu deildar frá upphafi, fagnaði fertugsafmæli sínu með því að skora mark þegar hann kom inn á sem varamaður í Evrópuleik Víkinga í gærkvöld. Liðið fór langleiðina að tryggja sér sæti í deildakeppni Sambandsdeildarinnar.