Fyrrverandi forseti og nýr forseti segjast báðir fara með völdin í Venesúela, sem og Bandaríkjaforseti. Venesúelamenn bíða milli vonar og ótta um hvað framtíðin ber í skauti sér.
Fulltrúar þrjátíu og fimm ríkja eru komnir til fundar í París, þar sem búist er við sameiginlegri yfirlýsingu um vopnahlé og friðarskilmála í Úkraínu. Kristrún Frostadóttir sækir leiðtogafundinn.
Formaður Flokks fólksins boðar breytingar á ríkisstjórninni á föstudaginn. Hún útilokar ekki að skipta sjálf um ráðuneyti.
Framboðsfrestur í leiðtoga-prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík rann út á hádegi. Hildur Björnsdóttir oddviti Sjálfstæðismanna í borginni sækist ein eftir efsta sætinu.
Þrettándabrennur eru víða í dag. Þjóðfræðingur segir þó að minna fari fyrir hátíðahöldum á þrettándanum en áður.
Fulltrúi í skipulags- og umhverfisráði Kópavogsbæjar telur óánægju íbúa á Kársnesi með gerð stofnstígs fyrir gangandi og hjólandi vegfarendur skrifast á skort á upplýsingum frá bænum, stígurinn auki lífsgæði Kópavogsbúa.
Engar öryggisskoðanir, úttektir á húsnæði eða eldvarnareftirlit hafði farið fram á bar í skíðabæ í Sviss í fimm ár þar sem 40 létust í eldsvoða á nýársnótt.
Málverk eftir Kristínu Jónsdóttur hangir á þeim vegg sem oftast er myndaður á Bessastöðum, skipta á um málverk þar árlega.
Landsliðsþjálfari karla í handbolta, er ánægður með undirbúninginn fyrir EM. Það skýrist þó ekki almennilega fyrr en í komandi vináttuleik gegn Slóveníu hvar liðið stendur. EM hefst eftir 10 daga.