Verktakar keppast við að koma í veg fyrir að hraun komist í rafmagnsmöstur við Svartsengi. Staðan í eldgosinu við Sundhnúkgsgíga er nokkuð óbreytt og hraun streymir meðfram varnargörðum við orkuverið. Gasmengunar gætir í Grindavík næstu daga.
Reynt verður til þrautar um helgina að ná sátt í kjaradeilu lækna og ríkisins. Verkfallsaðgerðir hefjast að óbreyttu á mánudag. Staðan er hins vegar þung í kjaraviðræðum kennara og verður tilboði þeirra um að aflýsa verkföllum gegn greiðslu launa væntanlega hafnað.
Ellefu eru sagðir hafa verið drepnir í árás Ísraels á höfuðborg Líbanon í nótt. Hezbollah hefur ekki tjáð sig um árásina, en aðferðafræðin er sú sama og þegar Ísrael hefur drepið hátt setta liðsmenn samtakanna.
Garðyrkjubændur segjast nauðbeygðir til að hækka verð á grænmeti 5 til 6 prósent, umfram neysluvísitölu. Raforkuverð til þeirra hækkar um fjórðung um áramót.
COP29, loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna, sem átti að ljúka í gær, var framlengd. Ekkert samkomulag hefur enn náðst um aðgerðir og kostnað vegna þeirra, og enn ber mikið í milli.
Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna gagnrýnir breytingar á útlendingalögum þar sem aukið sé á erfiðleika fólks sem synjað er um alþjóðlega vernd, tíðar beitingar einangrunar í gæsluvarðhaldi og heimildir lögreglu til að fylgjast með fólki sem ekki hefur framið glæp.