Rúmlega hálfrar aldar valdatíð Assad-feðga í Sýrlandi er lokið. Uppreisnarmenn náðu völdum í höfuðborginni Damaskus í morgun. Bashar al-Assad forseti flúði land en ekki er vitað hvar hann heldur sig.
Stjórnarskiptin geta haft miklar afleiðingar í Miðausturlöndum. Lektor í Miðausturlandafræðum segir enn óljóst hver tengsl uppreisnarhópanna séu og hvað þeir ætli sér.
Björgunarsveitir eru á leið inn í Kerlingarfjöll til aðstoðar ökumönnum sem hafa setið fastir í fimm bílum í rúman sólarhring. Veðurviðvaranir eru í gildi á nær öllu landinu.
Ekki er gert ráð fyrir formlegum stjórnarmyndunarviðræðum í dag, en vinna við myndun nýrrar ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins heldur áfram í dag. Samkvæmt heimildum fréttastofu hafa engar veigamiklar hindranir verið í veginum.
Flutningur fíkniefna um Karíbahafið hefur aukist mikið vegna meiri eftirspurnar í Evrópu. Flutningur á Kókaíni til Evrópu hefur líklega aldrei verið meiri og neysla þar stóraukist síðustu ár.
Mjólkurframleiðsla væri mun hagkvæmari hér á landi með erlendum kúm í stað íslenskra, samkvæmt nýrri skýrslu. Þær erlendu framleiða meiri mjólk og þurfa minna fóður.
Landsmenn stigu margir út á stóra svellbunka þennan sunnudagsmorguninn. Jóladagskráin á Árbæjarsafninu var felld niður vegna hálku, í fyrsta sinn í áratugi.