Mótmæli halda áfram í Íran þrátt fyrir mikla hörku öryggissveita klerkastjórnarinnar. Forseti landsins segir stjórnvöld staðráðin í að leysa efnahagsleg vandamál og reiðubúin til þess að hlusta á fólkið í landinu.
Grænlenskir hagsmunir verða að ráða ferðinni á fundi utanríkisráðherra Grænlands, Bandaríkjanna og Danmerkur í vikunni. Þetta segir utanríkisráðherra Grænlands. Þingflokksformaður Miðflokksins segir að taka verði yfirlýsingar Trumps bandaríkjaforseta um að taka Grænland alvarlega en ekki bókstaflega.
Gengi í námafyrirtækinu Amaroq á Grænlandi, sem er að stórum hluta í íslenskri eigu, hefur snarhækkað síðustu daga. Forstjóri Amaroq sagði fyrir helgi að Bandaríkjastjórn væri að velta fyrir sér að fjárfesta í fyrirtækinu.
Varað er við hvassri norðanátt og ofankomu á Suður- og Austurlandi frá því síðdegis og fram eftir degi á morgun. Óvissustig verður á veginum milli Kirkjubæjarklausturs og Jökulsárlóns þar sem gæti þurft að loka með stuttum fyrirvara.
Neyðarástandi hefur verið lýst yfir í Ástralíu vegna skæðra gróðurelda sem hafa gjöreyðilagt hundruð bygginga og skóglendi í suðausturhluta landsins.
Finnur Bjarnason hefur verið skipaður í embætti óperustjóra til fimm ára. Þetta er í fyrsta sinn sem skipað er í embættið.
Norðurljósin dönsuðu á himninum í gærkvöldi. Skipstjóri sem hefur farið með ferðamenn í norðurljósaferðir í rúman áratug segist aldrei hafa séð norðurljósin jafn litrík og falleg.