Hættumat er óbreytt á umbrotaslóðum á Reykjanesskaga. Hægst hefur á jarðskorpuhreyfingum en kvika heldur áfram að flæða inn í kvikuganginn. Mest er virknin norður af Grindavík.
Fjöldi Grindvíkinga bíður á Suðurstrandarvegi eftir því að komast í hús sín til að bjarga verðmætum. Bílaröðin nær marga kílómetra eftir veginum.
Frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga er eina málið á dagskrá þingfundar sem hefst á Alþingi í hádeginu.
Formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur vill tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga og koma þeim í skjól fyrir lánastofnunum.
Eigendur Vísis í Grindavík segja fasteignir og lausafé fiskvinnslunnar vel tryggt vegna jarðhræringanna. Unnið sé að því að verja verðmæti í hráefni og afurðum sem skilja þurfti eftir.
David Cameron, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er snúinn aftur á svið stjórnmálanna. Hann var í morgun gerður að utanríkisráðherra í mikilli uppstokkun á ríkisstjórninni.
Stærsta sjúkrahúsið á Gaza, er vart lengur hægt að kalla sjúkrahús, segir Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin. Tvö þúsund manns, læknar jafnt sem sjúklingar, sitja þar fastir vegna skothríðar og sprenguárása.