Grindvíkingar fá að dvelja í bænum allan sólarhringinn frá og með deginum í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem barst rétt fyrir fréttir.
Þingflokksformaður Samfylkingarinnar segir að ummæli formanns flokksins um útlendingamál feli ekki í sér neina stefnubreytingu. Málið sé hins vegar viðkvæmt og eðlilegt að um það sé rætt á breiðum grundvelli.
Ekkja Alekseis Navalní stjórnarandstæðings í Rússlandi segir Vladimír Pútín hafa drepið eiginmann hennar. Fjölskyldan hefur ekki enn fengið að sjá lík Navalnís og rannsókn Rússa á dauða hans hefur verið framlengd.
Verktakar á vegum HS Veitna og Almannavarna eru enn að reyna að finna hvar heitavatnsleiðslan frá Svartsengi til Grindavíkur fór í sundur.
Íslandsmet var slegið hjá Eskju á Eskifirði í morgun þegar kolmunna var landað úr færeyska uppsjávarskipinu Christian í Grótinum. Rekstrarstjóri fiskimjölsverksmiðju Eskju segir mest um vert að fiskurinn er góður.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdir við byggingu á nýju húsi fyrir Kvennaathvarfið hefjist á árinu. Búið er að kaupa lóð og teikningin er klár, segir framkvæmdastýra athvarfsins.
Óskað hefur verið eftir því að minnisvarði verði reistur um tökur á þáttunum True detective á Dalvík. Talið er að hann yrði mikið aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn.