Hægt verður að skrifa undir kjarasamninga í dag segir forsætisráðherra sem fundaði með fulltrúum verkalýðsfélaga innan ASÍ í morgun. Verkalýðsfélögin bíða eftir svörum frá sveitarfélögum um þátttöku í greiðslu á skólamáltíðum.
Fjármálaráðherra segir augljóst að grípa þurfi til ráðstafana til að mæta miklum nýjum útgjöldum ríkissjóðs sem fylgi kjarasamningum.
Útgjöldin hafi áhrif á ríkisfjármálin í ár og út samningstímann.
Eftir mánaðalangt stapp við Tyrki og Ungverja verður aðild Svía að NATÓ formlega fullgilt í dag. Sögulegur gleðidagur, segir framkvæmdastjóri NATÓ.
Rúmmál kviku undir Svartsengi er líklega orðið meira en það var fyrir kvikuhlaup á síðasta laugardag. Landris og kvikusöfnun heldur áfram.
Heilsugæslan í Garðabæ verður lokuð í dag og líklega næstu daga. Verið er að meta skemmdir eftir að eldur kom upp á Garðatorgi í nótt.
Grundfirðingar eru ósáttir við læknisþjónustu í bænum. Enginn læknir er þar með fasta búsetu.
Vopnavörður Hollywood-myndarinnar Rust var í gær dæmdur fyrir manndráp af gáleysi. Leikarinn Alec Baldwin á enn yfir höfði sér dóm fyrir að hafa hleypt af voðaskoti, sem varð tökustjóra myndarinnar að bana.
Valur og ÍBV leika til úrslita í bikarkeppni karla í handbolta á laugardag. Undanúrslit bikarkeppni kvenna verða spiluð í Laugardalshöll í dag og í kvöld.