Vopnahlé gæti tekið gildi á Gaza innan skamms. Viðræður milli Ísraels og Hamas um lausn tuga gísla eru á lokametrunum að sögn katarskra milligöngumanna.
Ríkisstjórnin leitar allra leiða til að finna Grindvíkingum húsnæði til lengri tíma. Verið er skoða hvort hægt sé að flytja inn sérstök hús fyrir íbúa.
Veðurstofan varar við hvassviðri og stormi fram á nótt, en gul viðvörun er í gildi víða um land. Veðrið hefur áhrif á næmi jarðskjálftamæla á Reykjanesskaga. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofunni segir minni líkur á að þeir greini gosóróa.
Hundrað Grindvíkingar og eigendur fyrirtækja fá að fara inn í Grindavík í dag. Fjölmiðlafólk fær ekki aðgang þar sem almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir ekki hægt að tryggja öryggi þess vegna veðurs.
Liðsmenn að minnsta kosti þriggja björgunarsveita hafa svarað beiðni Landsbjargar um aðstoð í Grindavík. Hvíla þarf þau sem þar hafa starfað og auka við mannskap.
Framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar segir að tjónið sem akkeri af skipi fyrirtækisins olli á vatnslögn til Eyja,
sé að öllu leyti ömurlegt. Rannsóknarnefnd samgönguslysa kannar hvað fór úrskeiðis en málið er hjá tryggingarfélagi útgerðarinnar og HS veitum.
Mannréttindadómstóll Evrópu hefur framlengt bann við að hælisleitandinn Hussein Hussein verði sendur til Grikklands. Dómstóllinn afléttir hins vegar banni við brottvísun móður hans og systkina.