Stöðug virkni er í nýja eldgosinu og of snemmt að spá fyrir um goslok. Það gýs í þremur gígum og hrauntungan við Bláa lónið skríður fram þótt hægst hafi á henni.
Miklu máli skiptir að Bláa lónið haldi starfsemi áfram og aðgengismál séu leyst hratt og örugglega, að mati Samtaka ferðaþjónustunnar. Lokanir þar hafa áhrif á ákvörðun ferðamanna um að koma til landsins.
Það er betra að stýra aðgangi ferðamanna að gosstöðvunum, en að loka á hann, segir sérfræðingur í öryggismálum hjá Ferðamálastofu. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir það ekki á dagskrá.
Bankastjóri Íslandsbanka segir að hækka þurfi vexti á verðtryggð lán þar sem enn sé mikill munur á verðbólgu og vöxtum Seðlabankans. Bankinn hafi tekið á sig milljarða kostnað vegna þess.
Viðbrögð leiðtoga ríkja heimsins við handtökuskipun Alþjóðlega sakamáladómstólsins yfir forsætisráðherra Ísraels eru misjafnar. Írar og Kanadamenn hlíta henni. Stjórnvöld í Bandaríkjunum eru ósammála dómstólnum.
Ójöfnuður milli kynslóða hefur aukist tvisvar sinnum hraðar á Íslandi en annars staðar á Norðurlöndum. Kaupmáttaraukning er margfalt meiri hjá eldra fólki en yngra.