Gjósa tók á Sundhnúksgígaröðinni á Reykjanesskaga í gærkvöld skömmu eftir ellefu og gaus á þriggja kílómetra sprungu þegar mest var. Hún hefur styst og nokkuð dregið úr krafti gossins. Hraun fór yfir Grindavíkurveg í nótt og nálgast Bláa lónið. Það rennur hratt fram.
Hátt í sextíu voru í bænum þegar fór að gjósa. Lúðrar voru þeyttir en ekki heyrðu allir í flautunum. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum segir að rýmingin hafi gengið vel og ekki sé tilefni til að endurskoða verklag. Hægt sé að rýma bæinn hratt þegar á þarf að halda.
Rafmagnslaust var í Grindavík um tíma í morgun en það er aftur komið á. Hraun flæðir yfir Njarðvíkuræð en hvergi er heitavatnslaust.
Úkraínumenn segja Rússa hafa skotið langdrægri flaug sem getur borið kjarnavopn í morgun. Slíkum flaugum er hægt að beina að skotmörkum í allt að sex þúsund kílómetra fjarlægð.
Formaður samninganefndar sveitarfélaganna segir viðræður við kennara ganga vel. Margt sé þó óleyst og engar líkur á að skrifað verði undir samninga í dag.
Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn gaf í morgun út handtökuskipun á hendur forsætisráðherra Ísraels.
Samfylkingin bætir við sig talsverðu fylgi í nýrri könnun Maskínu. Viðreisn mælist með yfir tuttugu prósent en Vinstri græn fá aðeins þrjú prósent. Framsóknarflokkurinn og Sósíalistar tapa mestu á milli kannana.