Eitt ár er liðið frá árás Hamas á Ísrael. Í stríðinu sem síðan hófst hafa tugþúsundir verið drepnar og milljónir eiga um sárt að binda. Atburða síðastliðins árs er ýmist minnst eða mótmælt um heim allan í dag.
Íslendingur sem þurfti að flýja með börn í loftvarnabyrgi þegar hann var með fjölmennan hóp ferðamanna í Ísrael segir innrás Hamas sitja í sér.
Dæmi eru um að aldraðir dvelji mánuðum saman á sjúkrahúsinu á Akureyri á meðan þeir bíða eftir plássi á dvalarheimilinu Hlíð, þar sem framkvæmdir standa enn yfir vegna myglu.
Alþingi kemur saman í dag eftir kjördæmaviku og landsfund Vinstri grænna þar sem ályktað var að ríkisstjórnarsamstarfið væri á endastöð.
Um fjörutíu prósent af fjárveitingum sem áttu að styrkja lögregluna eru gengnar til baka vegna aðhaldskrafna stjórnvalda, að sögn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Rannsóknarlögreglumenn hafi þurft að leggja verkefni til hliðar til að sinna öryggisgæslu á mótmælum.
Bandarísku vísindamennirnir Victor Ambros og Gary Ruvkun deila Nóbelsverðlaununum í læknisfræði í ár. Þeir uppgötvuðu míkróRNA sem hjálpar vísindamönnum að skilja hvernig gen virka í líkamanum.
Brýr á þjóðvegi eitt eru svo gamlar og sprungnar að ekki fæst undanþága til að aka með þungan krana milli landshluta. Í staðinn þarf að sigla með hann til Færeyja og aftur heim.
September var sá kaldasti frá árinu 2005. Sólskinsstundirnar í haust hafa hins vegar verið mun fleiri en í meðalári.
Víkingur og Breiðablik eru jöfn að stigum í efstu deild karla í fótbolta og aðeins tvær umferðir eftir.