Þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu voru stóryrtir á Alþingi í morgun um óboðlegar aðstæður erlends verkafólks og vinnumansal. Þeir skoruðu á stjórnvöld að stíga fastar til jarðar í þessum málum.
Krefjandi tímar eru framundan í efnahagsmálum og reyna mun á þolrif almennings samkvæmt hagspá Arion banka. Hagvöxtur verður minni, vanskil aukast og stýrivextir verða áfram háir.
Þrír ráðherrar í ríkisstjórn Ísraels fallast ekki á vopnahlé í Líbanon. Ísraelsher drap tuttugu manns í Líbanon í nótt. Hálf milljón manna hefur lagt á flótta.
Lögreglan á Norðurlandi eystra felldi í dag niður rannsókn á hendur sjö manns, þar af sex blaðamönnum, fyrir líkamsárás, brot á friðhelgi einkalífsins og dreifingu á kynferðislegu myndefni.
Kostnaður við þjónustu við börn og ungmenni með fjölþættan vanda er of mikill fyrir sveitarfélögin. Lagt er til að ríkið taki ábyrgð á þjónustu við þau í nýrri skýrslu.
Forseti Rússlands vill rýmka reglur um beitingu kjarnorkuvopna þannig að þeim megi beita gegn ríkjum sem ekki búa yfir slíkum vopnum, hafi þau tekið þátt í meiri háttar árás á Rússland. Talsmaður rússneskra stjórnvalda segir þetta viðvörun til Vesturvelda.
Norðanáhlaupið í júní varð til þess að lömb koma léttari af fjalli en í fyrra og fallþungi dilka er minni en í venjulegu ári það sem af er sláturtíð.
Grindavík og Njarðvík tefla fram sameiginlegu kvennaliði í fótbolta.