Reykkafarar náðu manni úr brennandi íbúð í miðborg Reykjavíkur í morgun og var hann fluttur á slysadeild. Íbúar í tveimur öðrum íbúðum í húsinu komust út af sjálfsdáðum.
Innrás Úkraínumanna í Kúrsk hérað í Rússlandi linnir um leið og Rússar fallast á réttlátan frið, tilkynntu stjórnvöld í Kyiv í morgun. Úkraínumenn segjast hafa náð um eitt þúsund ferkílómetra svæði í héraðinu á sitt vald.
Framkvæmdastjóri Landverndar segir skorta heildarstefnu um nýtingu vindorku á Íslandi áður en vindaflsvirkjun við Búrfell verður að veruleika. Orkustofnun veitti Landsvirkjun í gær leyfi til að reisa 30 vindmyllur sem hver verður allt að 150 metra há.
Útbreiðsla makríls við Ísland hefur ekki mælst minni frá því að Hafrannsóknarstofnun hóf rannsóknir árið 2010. Leiðangursstjóri segir að ballið gæti næstum verið búið hvað varðar makrílgengd inn í íslenska landhelgi.
Milljarðamæringurinn Elon Musk fór fögrum orðum um Donald Trump, forsetaframbjóðanda í samtali sem þeir áttu á samfélagsmiðlinum X í gærkvöld. Trump fór mikinn um innflytjendamál og alla vankanta núverandi forseta Bandaríkjanna.
Bæjarstjórinn í Hafnarfirði segir þörf á umræðu um gjaldfrjáls námsgögn og skólamáltíðir. Huga verði að rekstri sveitarfélaga sem oft sé stillt upp við vegg.