Ýmislegt bendir til þess að það styttist í gos miðað við reynslu af fyrri eldsumbrotum á Reykjanesskaga. Kvikan flæðir enn inn en á sama tíma dregur úr virkni á svæðinu.
Lögreglan á Suðurnesjum byrjaði að hleypa Grindvíkingum sem búa á rauða svæðinu svokallaða inn í bæinn í morgun. Unnið er að viðgerð til að koma rafmagni á hluta bæjarins.
Formaður fjárlaganefndar Alþingis segir viðbúið að hamfarirnar á Suðurnesjum og í Grindavík hafi áhrif á rekstur ríkissjóðs á næsta ári.
Byssur, handsprengjur, skotfæri og önnur hertól eru meðal þess sem Ísraelsher segist hafa fundið á Al-Shifa sjúkrahúsinu á Gaza. Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna hefur áhyggjur af vaxandi spennu á Vesturbakkanum.
180 Venesúelabúar fóru úr landi í gær eftir að hafa verið synjað um dvalarleyfi hér á landi. Formaður Félags umsækjenda um alþjóðlega vernd segir félaginu hafa borist upplýsingar í morgun um að vegabréf þeirra hafi verið gerð upptæk af yfirvöldum og þau flutt í einhvers konar varðhald.
Meirihluti þingmanna á spænska þinginu styður nýja stjórn Pedro Sanchez, leiðtoga sósíalista. Niðurstaðan varð ljós fyrir nokkrum mínútum. Meirihlutinn náðist eftir umdeilt samkomulag um sakaruppgjöf sem gert var við flokk aðskilnaðarsinna í Katalóníu.
Isavia ætlar að skipta ensku út fyrir íslensku sem fyrsta tungumáli á skiltum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Fyrirtækið gefur sér rúmt ár í að koma þessu í framkvæmd.