Neyðarástand er í Los Angeles í Bandaríkjunum þar sem skógareldar breiddust út í gær á ógnarhraða. Tugir þúsunda hafa þurft að flýja heimili sín.
Matvælastofnun hefur áhyggjur af því að skætt afbrigði fuglaflensu berist í spendýr hér á landi, bæði í villt dýr og húsdýr á borð við hunda og ketti. Tíu vikna kettlingur drapst fyrir nokkrum vikum úr veirunni.
Veitingastaðurinn Flame þarf að greiða starfsfólki þrjár og hálfa milljón, auk dráttarvaxta til leiðréttingar á vangoldnum launum, samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness. Formaður Matvís, sem rak málið fyrir dómi, segir þetta fullnaðarsigur og staðfesta túlkun félagsins á kjarasamningum.
Lögregla og tollur lögðu hald á metmagn maríjúana í fyrra, yfir 283 kíló. Sérfræðingur hjá ríkislögreglustjóra segir að þetta hafa náðst í fáum en stórum málum, og þeim fari fjölgandi.
Næsti kanslari Austurríkis gæti komið úr Frelsisflokknum, sem er lengst til hægri í austurrískum stjórnmálum. Leiðtogi flokksins er með umboð til stjórnarmyndunar. Viðræður annarra flokka sigldu í strand um helgina.
Dómsmálaráðherra ætlar að funda með ríkissaksóknara og vararíkissaksóknara á allra næstu dögum og segir að langvarandi deilur þeirra skaða hagsmuni almennings.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum saka RSF-herinn í Súdan um þjóðarmorð og beita leiðtoga hans viðskiptaþvingunum. Tæp tvö ár eru síðan landið steyptist í blóðugt borgarastríð.