Formenn Miðflokksins og Flokks fólksins telja líklegt að tillaga um vantraust á matvælaráðherra verði lögð fram þegar þing kemur saman eftir jólafrí. Óvíst er hvort þingmenn Sjálfstæðisflokks kysu gegn tillögunni.
Landris við Svartsengi á Reykjanesskaga er nú meira en það var fyrir eldgosið í síðasta mánuði. Hraðinn á landrisinu hefur aukist á ný, eftir að það hægðist á því í síðustu viku.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna fordæmir hugmyndir um að Gaza-búum á flótta verði komið fyrir fjarri heimkynnum sínum að stríði loknu. Síðar í vikunni hefst aðalmeðferð fyrir Alþjóðadómstóli Sameinuðu þjóðanna, þar sem Suður-Afríka sakar Ísrael um þjóðarmorð á Gaza.
Formaður Eflingar segir mögulegt að skrifað verði undir kjarasamninga fyrir mánaðamót. Það ræðst þó af útspili stjórnvalda.
Þýskir bændur flykktust í þúsunda tali út á götur og hraðbrautir í Þýskalandi í morgun á traktorunum sínum, til að mótmæla áformum stjórnvalda um að hætta niðurgreiðslum á eldsneyti fyrir bændur. Talsverð röskun hefur orðið á umferð víða um landið vegna mótmælanna.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins vill að skipulags- og leyfismál á Alþingisreitnum verði færð frá borginni til þingsins. Hann vinnur að frumvarpi sem lagt verður fyrir þingið. Tjaldbúðir við Alþingishúsið eru kornið sem fyllti mælinn.
Notkun á heitu vatni hefur aukist mikið á Fljótsdalshéraði undanfarin ár. Heitavatnslindir í Urriðavatni duga í fáeina áratugi.
Kvikmyndin Oppenheimer er sigurvegari Golden Globe verðlaunanna sem voru veitt í nótt.