Öflugasti skjálftinn í hrinunni sem hófst fyrir hálfum mánuði á Reykjanesskaga varð rétt fyrir klukkan eitt í nótt og mældist 4,8. Engin merki eru um að kvika færist nær yfirborði. Margir hrukku upp við skjálftann. Sumir hótelgestir í Bláa lóninu fluttu sig á annað hótel. Ákveðið hefur verið að loka Bláa lóninu í viku.
Leiðtogar 57 múslímaríkja funda í Sádi-Arabíu um helgina, til að ræða stríð Ísraela og Hamas. Það sem helst sameinar ríkin er óttinn við að stríðið breiðist út, segir sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum.
Starfsfólki á Litla hrauni er misboðið að horfa upp á fanga með alvarlegan geðrænan vanda í einangrun. Fangelsismálastjóri segir ólíðandi að maðurinn fái ekki innlögn á geðdeild.
Úrbóta er þörf í húsnæðismálum fatlaðs fólks. Öryrkjabandalagið gaf í dag út skýrslu um stöðu mála.
Íslenska kvennalandsliðið í körfubolta hefur leik í undankeppni EM 2025. Ísland sækir Rúmena heim klukkan fjögur og Helena Sverrisdóttir nær að bæta landsleikjamet Íslands í leiknum.