Á þessum degi í fyrra gerðu Hamas samtökin umfangsmikla árás á Ísrael með þeim afleiðingum að um 1200 manns létust og 250 voru tekin sem gíslar. Nánast strax í kjölfarið hófu Ísraelsmenn árásir á Gaza sem hafa staðið nánast linnulaust síðan, tugir þúsunda hafa látist og stór hluti Gaza hefur verið eyðilagður. Stríðið hefur breiðst út og staðan nú, ári síðar, er þannig að vonin um vopnahlé eða frið er afskaplega veik. Erlingur Erlingsson hernaðarsagnfræðingur var fyrsti gestur þáttarins, og hann ræddi um árið sem liðið er, vendingar síðustu vikna og framhaldið.
Björn Malmquist færði okkur tíðindi af meginlandi Evrópu. Dómsmálaráðherra er væntanlegur á meginlandið, til Lúxemborgar, til að ræða við kollega sína meðal annars um Schengen-samstarfið. Björn sagði frá því og líka mótmælum í Brussel, tollum á kínverska rafbíla og Úkraínuforseta.
Í síðasta hluta þáttarins heyrðum við annan pistil Sóleyjar Kaldal, áhættustýringar- og öryggisverkfræðings, um Öryggi þjóðar. Í pistli dagsins fjallaði hún um stjórnleysi alþjóðasamfélagsins - af hverju það reynist ríkjum heims svo erfitt að halda friðinn.
Tónlist:
KK, Jón Jónsson. - Sumarlandið.
KK - Bráðum vetur.
Halvdan Sivertsen - Kjærlighetsvisa.
Frumflutt
7. okt. 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunvaktin
Umsjónarmenn eru Björn Þór Sigbjörnsson og Þórunn Elísabet Bogadóttir.