Vika er í kjördag í Bandaríkjunum og viðbúið að komandi lokadagar kosningabaráttunnar verði fjörugir. Sjálfsagt er allt á yfirsnúningi í herbúðum frambjóðendanna tveggja enda vart sjónarmunur á fylgi þeirra í ríkjunum sjö sem kölluð eru sveifluríki. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, fór yfir stöðu mála.
Í Berlínarspjalli var íslensk myndlist í þýsku höfuðborginni á dagskrá. Meðal viðburða í tengslum við aldarfjórðungs afmælis norrænu sendiráðanna í Berlín er samnorræn myndlistarsýning. Arthur Björgvin spjallaði við sýningarstjórann Margréti Áskelsdóttur listfræðing.
Annars konar menning var svo til umfjöllunar; menningararfur. Hér hefur fiskur verið hertur nánast frá landnámi; skreið var lengi mikilvæg útflutningsvara og harðfiskur er hnossgæti. Nú er unnið að því að fá hertan fisk skráðan á lista UNESCO yfir óáþreifanlegan menningararf mannkyns. Norðmenn fara fyrir verkefninu en að því koma líka Íslendingar, Ítalir og Nígeríumenn. Við töluðum um þetta; harðfisk og skreið við þau Dóru Svavarsdóttur matreiðslumeistara og Guðmund Guðmundsson matvælafræðing.