Í dag ætlum við meðal annars að fjalla um Ungverjaland; um lífið í landinu og stöðu þess í samfélagi þjóðanna. Miklar breytingar hafa orðið undir stjórn Viktors Orban forsætisráðherra sem stöðugt og markvisst hefur aukið völd embættis síns. Raunar er sagt að Ungverjaland geti vart lengur talist lýðræðisríki. Gunnsteinn Ólafsson tónskáld þekkir vel til mála; hann var við nám í Búdapest á níunda áratug síðustu aldar - á kommúnistatímanum - og hefur dvalið í Ungverjalandi um skemmri eða lengri tíma margoft síðan, síðast nú í vetur. Við spjölluðum um stöðu mála við Gunnstein.
Frábær árangur íslensks tónlistarfólks, nú síðast Laufeyjar Lín Jónsdóttur, vekur iðulega mikla athygli og stolt hér á landi. Á bak við árangur af þessu tagi er gríðarleg vinna, sem yfirleitt hefst í löngu tónlistarnámi í íslenskum tónlistarskólum. Við ræddum við Sigrúnu Grendal, formaður Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum, um tónlistarnám á Íslandi.
Í síðustu viku var sagt frá því að bandarískir djúpsjávarkönnuðir telji sig hafa fundið flak flugvélar Ameliu Earhart, flughetjunnar frægu. Hún hvarf á flugi yfir Kyrrahafi 1937 og hefur verið leitað æ síðar, ýmsar kenningar settar fram um afdrif hennar í áranna rás- en ekkert vitað með vissu. Ef þessar nýjustu fréttir reynast réttar, liggur flak vélarinnar á miklu dýpi á afskekktu hafsvæði í Kyrrahafi. En eins og flest annað tengt þessari lífseigu ráðgátu eru ekki allir sannfærðir og erfitt gæti orðið að sannreyna kenninguna. Vera Illugadóttir sagði frá þessu.
Tónlist:
Fitzgerald, Ella and her Famous Orchestra - Stairway to the stars.
Beatles, The - All my loving.
Turtles, The - Happy together.