Upplýsingaóreiða er vandamál í heilbrigðismálum eins og mörgu öðru og misgóðar upplýsingar um ýmislegt sem viðkemur mat, sjúkdómum og meðferðum flæða um internetið. Hvaða áhrif hefur þetta? Það er meðal þess sem við ræddum við Unni Önnu Valdimarsdóttur prófessor í faraldsfræði, sem nýverið tók líka við starfi forseta heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands.
Um það bil í miðri Afríku er ríkið Úganda. Og þar, í höfuðborginni Kampala, býr Þórhildur Ólafsdóttir útvarpskona. Þórhildur verður með okkur á Morgunvaktinni í vetur, hún segir frá Úganda og lífinu þar og því sem á daga hennar drífur.
Bresk stjórnvöld tilkynntu í síðustu viku að þau ætli að afhenda yfirráð á Chagos-eyjaklasa í Indlandshafi yfir til eyríkisins Máritíus. Bretland og Máritíus hafa deilt um þennan afskekkta eyjaklasa - sem hefur verið kallaður síðasta nýlenda Breta í Afríku - áratugum saman. Það flækir málin að á einni Chagos-eyja er stór bandarísk herstöð. Íbúar eyjaklasans voru neyddir að heiman til að rýma fyrir herstöðinni. Þeir og afkomendur þeirra hafa barist fyrir því að snúa aftur heim - en þeim líst ekki endilega vel á nýjustu fréttir. Vera Illugadóttir sagði frá.
Tónlist:
Hljómsveit Magnúsar Ingimarssonar, Ingibjörg Smith - Áður í iðgrænum lundi
Tillotson, Johnny - Poetry in motion.
Stórsveit Reykjavíkur - Ása.
Mathew Amone Watmon - Otwenge.
Olamide, Asake - New Religion.