Einn af hverjum fimm launþegum í BHM hefur mikinn áhuga á því að skipta um starf og/eða vinnustað, samkvæmt nýlegri lífskjararannsókn BHM. Algengustu ástæður sem félagsfólk gefur upp eru launin, stjórnunarhættir á vinnustað og starfstengt álag en misjafnt var hvaða ástæður mest voru gefnar upp eftir því hvar fólk vinnur og í hvaða geira. Við ætlum að skoða helstu niðurstöður þessarar könnunar með formanni BHM Kolbrúnu Halldórsdóttur.
Við ætlum að sjálfsögðu að fylgast með pólitíkinni en eins og flestir vita þá var haldinn blaðamannafundur í Hörpu kl. 14 í dag en þar var ráðherraskipan nýrrar ríkisstjórnar kynnt, Höskuldur Kári Schram fréttamaður var á fundinum og hann kemur til okkar rétt á eftir en kl. sjö í kvöld hefur Forseti Íslands boðað ríkisráðsfund á Bessastöðum.
Kveikur annað kvöld er helgaður fólki sem segja má að lendi í hálfgerðri ruslatunnu hjá heilbrigðis- og velferðarkerfum. Sögur fólksins eru sláandi, margar og efnið bíður upp á fjölbreytta eftirfylgni og umræðu. Jóhann Bjarni Kolbeinsson og Árni Þór Theodórsson koma til okkar á eftir og segja okkur betur frá þættinum í kvöld.
Guðrún Bjarnadóttir er eigandi jurtalitunarstofu er kallast Hespuhúsið, sem er skammt frá Selfossi og hefur hún um árabil litað band með jurtum. Í fræðslukaffi Menningarhússins Gerðubergs mun hún næsta fimmtudag fræða gesti um jurtalitun í aldanna rás, fara yfir litunartímabilin í Íslandssögunni og fjalla um hvaða jurtir voru notaðar á hverjum tíma. Við forvitnumst um jurtalitun hjá Guðrúnu í þættinum.
Stöff er rafrænt deilihagkerfi sem býður notendum að leigja út stöffið sitt til annarra notenda á öruggan hátt og styrkja þar með hringrásarkerfið. Atli Þór Jóhannsson og Andri Sigurðsson eru mennirnir á bak við Stöff.is þeir segja okkur betur frá.
En við byrjum á Íslenska kvennalandsliðið í fótbolta mætir Þýskalandi í undankeppni EM 2025 núna rétt á eftir. Ísland vann Pólland í fyrstu umferð, 3-0, á meðan Þjóðverjar höfðu betur gegn Austurríki, 2-3. Leikurinn er haldinn í Aachen og hefst 16:10. Helga Margrét Höskuldsdóttir íþróttafréttakona er á staðnum.