HönnunarÞing er hátíð hönnunar og nýsköpunar, haldin á Húsavík um helgina. Áhersla ársins er tónlist og margvíslegar birtingarmyndir snertiflata hönnunar og tónlistar. Á dagskránni verða meðal annars erindi frá prófessor við Listaháskóla Íslands, bátahönnuður, hugarheimur Skálmaldar, ný hljóðtækni, stjórnarmanneskja frá Bang & Olfusen og tónlistaruppákomur. Til að segja okkur nánar af þessu mættu til okkar þau Snæbjörn Ragnarsson tónlistarmaður í Skálmöld og Steinunn Eldflaug Harðardóttir, DJ Flugvél og geimskip, en þau eru bæði með fyrirlestra á hönnunarþinginu.
Eltum veðrið er nýtt leikrit, samið af mörgum fremstu gamanleikurum þjóðarinnar úr leikhópi Þjóðleikhússins, og unnið upp úr missönnum sögum af útilegum á Íslandi þar sem allt fer í steik. Óborganlegar aðstæður sem við þekkjum öll – alltof vel. Við fengum þau Guðjón Davíð Karlsson, Góa og Hildi Völu Baldursdóttur leikara í sýningunni til þess að segja okkur meira.
Og eins og venjulega á miðvikudögum kom Atli Fannar Bjarkason til okkar í liðinn Meme vikunnar. Þar sem hann segir okkur af því nýjasta, óvænta og skrýtna sem finnst á veraldarvefnum hverju sinni og að þessu sinni var þetta upptaka úr X-factor í Bretlandi frá 2007 sem fer nú eins og eldur í sinu á samfélagsmiðlinum Tik Tok.
Á morgun verða haldnir styrktartónleikar í minningu Bryndísar Klöru Birgisdóttur sem lést þann 30. ágúst síðastliðinn. Tónleikarnir verða haldnir í stóra salnum í Háskólabíó og fremstu tónlistarmenn landsins munu koma fram. Inga Lilja Ómarsdóttir og Helga Hrund Ólafsdóttir skólasystur Bryndísar Klöru komu til okkar í þáttinn og sögðu okkur frá.
Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíð verður haldin í Reykjavík 26. október og stendur til 3. nóvember. Þar verður boðið upp á kvikmyndir, fræðslu og alls kyns námskeið fyrir öll börn á grunnskólastigi á landinu. Lísa Björg Attensperger, stjórnandi Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík og Ása Baldursdóttur, dagskrárstjóri Bíó Paradís komu til okkar og sögðu okkur af því allra helsta sem þar verður boðið upp á.
Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, annar af forsvarsmönnum Hjartans í Vatnsmýrinni, nefndamaður í umhverfis- og samgöngunefnd og formaður fjárlaganefndar ræddi við okkur um nýja skýrslu sem kynnt var í gær um flugvöll í Hvassahrauni.
Lagalisti:
Á Móti Sól - Hvar Sem Ég Fer.
Skálmöld - Ratatoskur.
Stuðmenn - Betri Tíð.
Leikhópur Eltum veðrið - Söngur lúsmýsins (pínulítið blóð).
Friðrik Dór Jónsson - Aftur ung (Dansaðu við mig).
Curtis Harding - I Won't Let You Down.
Bachman-Turner Overdrive - You Ain't Seen Nothing Yet.
Ultraflex - Say Goodbye.
Fleetwood Mac - As long as you follow
Moses Hightower - Sjáum hvað setur
Elín Hall - Hafið er svart
Sabrina Carpenter - Taste