EM í knattspyrnu hefst á föstudaginn og RÚV sýnir beint frá keppninni. Í gær bárust þær fréttir að kvöldfréttir sjónvarps yrðu færðar vegna þessa en fréttatíminn verður ekki lengur á dagskrá klukkan 7 heldur hefst hann klukkan 9. Sitt sýnist hverjum um þessa breytingu og hingað til okkar á eftir kemur Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV og við spyrjum hann útí þessa ákvörðun.
Fimm íslenskar konur sem kalla sig Bárurnar fóru til Svalbarða til þess að taka smá sundsprett í Norður-Íshafinu við strönd bæjarins Longyearbyen. Þetta gerðu þær í tilefni þess að tvö ár eru liðin frá því að hópurinn synti yfir Ermarsundið. Elsa Valsdóttir og Sigríður Lárusdóttir úr Bárunum koma til okkar á eftir og segja okkur ferðasöguna.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra hefur ákveðið að leyfa hvalveiðar á yfirstandandi tímabili og er leyfilegt veiðimagn 128 langreyðar. Ráðherra segir að sér beri skylda til þess að gefa leyfið út, burtséð frá eigin skoðunum á málinu. Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi telur leyfi matvælaráðherra aðeins veitt til málamynda og við ætlum að fá til okkar á eftir Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur framkvæmdastjóra SFS.
Aldrei hef ég mætt jafnmörgu hjólreiða- og hlaupafólki og í gær á góðviðris sunnudegi. Sumarið er sannarlega komið. Fór eins langt og ég komst með sjónum í Mosfellsbæ. Hjólastígnum lauk við moldarbing við mörk Kjalarness að ég held. Mikil dægrastytting fyrir mig að hjóla, taka, velja og vinna myndirnar úr ferðunum. Þetta skrifar Þráinn Þorvaldsson í færslu sinni á FB um helgina en hann hefur verið duglegur að segja frá ferðalögum sínum um landið og nú síðast á rafmagnshjóli í kringum og í höfuðborginni. Þráinn er heldri borgari eins og sagt er og segir að það sé ekkert mál að byrja að hjóla aftur maður þurfi bara að byrja rólega. Þráinn kemur til okkar á eftir
Segja má að nú séu jólin á gróðrarstöðvum landsins, brjálað að gera og fólk keppist við að gróðursetja og lífga upp á umhverfi sitt með litríkum blómum. Hulda Geirsdóttir kíkti við í gróðrastöðinni Mörk í Reykjavík í dag og fékk sumarstemminguna beint í æð.
Mælt er með að börn séu inni í dag og íþróttaæfingar utan dyra verði felldar niður á höfuðborgarsvæðinu vegna mengunar frá eldgosinu við Sundhnúk. Þetta er ein mesta mengun sem mælst hefur frá því eldsumbrotin hófust á Reykjanesskaga og hingað er kominn Þorsteinn Jóhannsson sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun.