Í nýju Lagareldisfrumvarpi sem liggur fyrir á alþingi til umræðu eru lögð til ný heildarlög um sjókvíaeldi, landeldi og hafeldi. Markmið frumvarpsins eins og segir á vef stjórnarráðsins er að skapa lagareldi á Íslandi skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi. Frumvarpið var í samráðsgátt í töluverðan tíma og sjaldan eða aldrei hafa frumvörð fengið eins margar umsagnir og svo virðist sem þær hafi litlu skilað að mati Elvars Arnars Friðrikssonar sem er framkvæmdastjóri Verndarsjóðs villtra laxastofna. Við heyrum í Elvari í þættinum.
Nýlega skrifaði Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður grein á Vísi sem hefur yfirskriftina "Konur sem eiga ekki að eignast börn". Í greininni talar hún um að jöfn staða fólks eftir kyni sé tryggð í stjórnarskrá Íslands og einnig vitnar hún í lög um jafna stððu og jafnan rétt kynjanna, og ákvæði í lögunum um skyldur atvinnurekenda til að auðvelda starfsfólki að koma aftur til starfa eftir fæðingar og foreldraorlof. Diljá Mist bendir á að víða sé pottur brotinn í þessum efnum og hún vill sjá úrbætur. Við ræðum þessi mál við Diljá Mist hér á eftir.
Indriði Einar Reynisson læknir hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skrifaði áhugaverða færslu um skriffinskufárið hjá læknum sem að hans mati er algerlega komið ut í öfgar. Þessi umræða er ekki ný af nálinni en hún rataði m.a. inn á alþingi á dögunum en þar sagði Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar að í heilbrigðiskerfinu fari allt of mikill tími í skriffinnsku og alltof lítill tími í að sinna sjúklingum. Starfshópur um vottorðagerð skilaði af sér skýrslu fyrir hátt í tveimur árum, hvað er að frétta spurði Jóhann Páll fyrirspurnartíma á alþingi og beindi spurningunni til Willums Þórs heilbrigðisráðherra. En hverju er um að kenna ? Er kerfið að krefjast allt of margra vottorða ? Ragnar Freyr Ingvarsson læknir hefur vakið athygli á þessu og hann kemur til okkar á eftir.
Í gær tóku flóttamenn og sjálfboðaliðar frá hinum ýmsu löndum forskot á stóra plokkdaginn sem haldinn verður um aðra helgi þegar að hátt í fimmtíu manns fóru um Landsspítalasvæðið í Fossvogi og plokkuðu. Einar Bárðarson yfirplokkari var að sjálfssögðu á svæðinu til að kenna réttu handtökin og það ætlar hann einnig að gera á eftir þegar að haldið verður nokkurs konar plokknámsskeið á Arnarneshæðinni klukkan 6. Einar kemur til okkar á eftir og segir okkur betur frá þessu.
Hvað er viðeigandi klæðnaður í jarðarförum? Þessu hafa eflaust margir velt fyrir sér og ekki haft svar við. Albert Eiríksson aðstoðarskólastjóri tónlistarskólans á Ísafirði, lífskúnstner og eigandi síðunnar alberteldar.is veit svarið við þessu og ætlar að segja okkur frá því hvað sé tilhlýðlegur klæðnaður í jarðarförum fyrir lok þáttar.
En við byrjum á þessu Í gær var haldið málþing um öryggisinnviði í Skaftafellssýslum en sveitarfélögin Mýrdalshreppur, Skaftárhreppur og Hornafjörður efndu til samtals með hagsmunaaðilum vegna mikils álags á öryggisinnviði á svæðinu en nú er staðan sú að ferðamenn sem gista á hótelum og gistiheimilum á hverri einustu nóttu, nánast allt árið um kring, eru 40% fleiri en íbúar sveitarfélaganna. Á málþinginu var tekið samtal um stöðuna og mögulegar lausnir. Og til þess að segja okkur betur frá og ræða þessa stöðu við okkur er hingað kominn Sigurjón Andrésson bæjarstjóri Hornafjarðar.