Síðdegisútvarpið í dag er í umsjón Hrafnhildar og Kristjáns Freys.
Í gær birtist grein á Vísi eftir Steinar B. Aðalbjörnsson næringarfræðing og forvarnarfulltrúa hjá Krabbameinsfélaginu undir yfirskriftinni : Ákall til matvælaframleiðenda og sölu- og markaðsaðila matvæla. Þar fer Steinar yfir mikilvægi þess að aðgengi að hollum og næringarríkum mat sé gott og mikilvægt í baráttu við betri lýðheilsu. Krabbameinsfélagið stendur líka fyrir jólaleik þar sem fólk og fyrirtæki eru hvött til að finna sniðuga útfærslu á því hvernig bera megi fram grænmeti og/eða ávexti á nýstárlegan hátt. Steinar kemur í heimsókn
Þótt það sé ekki nákvæmlega vitað hvenær Púkk var fyrst byrjað að spila á Íslandi, þá hefur það samt tvisvar verið gefið út áður í formi borðspils. Frímerkjamiðstöðin gaf út sína útgáfu árið 1977 og Gutenberg árið 2004. Nú hefur Berglind Sigurðardóttir vakið spilið aftur til lífsins og kennir okkur Púkk í beinni.
Rithöfundurinn Lilja Sigurðardóttir er bæjarlistamaður Kópavogsbæjar. Eitt af hennar sjálfskipuðu embættisverkum er að bjóða upp á skemmtilega viðburðadagskrá sem hverfist um glæpasöguna í öllum sínum litbrigðum. Í kvöld sér hún um dularfulla spurningakeppni sem kallast Krimmakviss í Kópavogi og við forvitnumst um þennan jólalega en spennandi viðburð.
Heiðmörk er vinsælt útivistarsvæði í útjaðri Reykjavíkur en þar er að finna fjölbreytt landslag og skógrækt sem Skógræktarfélag Reykjavíkur hefur haft veg og vanda af. Orkuveitan er eigandi Elliðavatnslandsins sem nær yfir stóran hluta Heiðmerkur. Á jörðinni eru vatnstökusvæði Veitna sem eru mikilvæg auðlind og sér stórum hluta landsmanna fyrir fersku vatni. Nú berast fréttir af því að Orkuveita Reykjavíkur freisti þess nú að fá átta sumarhúsaeigendur í Heiðmörk borna út úr bústöðum sínum, Eiríkur Hjálmarsson hjá OR útskýrir fyrir okkur um hvað málið snýst.
Guðmundur Höskuldsson býr í Neskaupsstað á Norðfirði og fæst þar meðal annars við hljóðfærasmíði og tónlistarútgáfu en hann gaf út sína fyrstu sólóplötu á dögunum, undir listamannsheitinu Dundur en platan heitir Tilvera og hefur fengið prýðisdóma víða. Við ætlum að slá á þráðinn austur og heyra aðeins af því við hvað hann er að dunda núna í desember.
Og við byrjum á fregnum frá Birni Malmquist í Brussel