Á dögunum ræddum við hér í Síðdegisútvarpinu við Ásdísi Kristinsdóttur, forstöðumann verkefnastofu Borgarlínunnar og Bryndísi Friðriksdóttur svæðisstjóra Höfuðborgarsvæðisins hjá Vegagerðinni um Borgarlínuna þ.e verkið sjálft og hvar það er statt. Við ætlum að halda áfram að ræða Borgarlínu í dag og samgöngur á höfuðborgarsvæðinu og fá til okkar Þorkel Sigurlaugsson varaborgarfulltrúa en hann er í félaginu Samgöngur fyrir alla og fá hann til þess að ræða við okkur um þeirra hugmyndir, m.a. um jarðgöng sem að þeirra sögn gæti verið vænlegur kostur. Þorkell við spyrjum bara í upphafi, hvernig borgarlína væri ykkur helst að skapi.
Í kvöld fara fram sérstakir styrktartónleikar í Bústaðakirkju þar sem ætlunin er að safna fé fyrir fjölskyldufólk úr Grindavík. Meðal þeirra sem þarna koma fram er kór Grindavíkurkirkju og nýstofnaður barnakór kirkjunnar og á efnisskránni verður jólatónlist Mariuh Carey í útsetningu fyrir kór. Við fáum hana Elínborgu Gísladóttur, sóknarprest Grindavíkurkirkju, til að segja okkur betur frá þessu öllu saman.
?Ókeypis heimsending og dropp afhending?, og hvað er það sem er afhent heim að dyrum? Jú, það er áfengi. Netsala á áfengi hefur vaxið síðustu ár. Með því að selja áfengi í gegnum erlendar vefsíður og senda heim til fólks er farið blygðunarlaust á svig við einkaleyfi Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til smásölu á áfengi og lög brotin og yfirvöld gera ekkert í málinu. Svona hefst grein sem að Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir þingmaður Vinstri grænna skrifaði á Vikublaðið.is en hún tók málið einnig upp á Alþingi í gær og varaði við þesari þróun. Bjarkey verður á línunni hjá okkur á eftir.
Það eru auðvitað fjölmargir jólalegir viðburðir út um allt land á aðventunni og jólatónlistin vitaskuld víðast í forgrunni en í Norðurljósasal Hörpu verður í næstu viku dagskrá sem er á lágstemmdari nótum en ella þó jólin nálgist óðfluga. Tónlistarkonurnar Ellen Kristjáns, Guðrún Gunnars, Kristjana Stefáns og Ragnheiður Gröndal koma þar saman ásamt einvalaliði hljóðfæraleikara og flytja öll sín uppáhalds jólalög í asalausum útgáfum. Við fáum þær stöllur, Kristjönu, Ellen og Ragnheiði í heimsókn.
Veðrið hefur að mestu leikið við landsmenn á aðventunni og á síðustu misserum en búast má við talsverðum viðsnúningi í veðri á næstu dögum og við ætlum að horfa aðeins í kortin með Sigurði Jónssyni veðurfræðingi.
En við hefjum þáttinn venju samkvæmt með því að hringja til Brussel þar sem fréttaritarinn okkar Björn Malmquist er staddur.