Menningin blómstrar sem aldrei fyrr um allt land og hér í henni Reykjavíkurborg bárust fregnir af því í dag að borgaryfirvöld ætli að endurnýja og hækka rekstrarsamninga við fimm sjálfstætt starfandi aðila í menningarlífi borgarinnar. Styrkjunum er ætlað að koma til móts við aukinn rekstrarkostnað svo sem vegna húsnæðis og launa. Skúli Helgason formaður Menningar-, íþrótta- og tómstundaráðs ræðir við okkur um menninguna í Reykjavík.
Um helgina verður hinn árlegi matarmarkaður í Hörpu og þar koma bændur og búalið saman og bjóða upp á það sem þau hafa verið að verka í sínum heimasveitum. Bergþóra Valgeirs er bóndi á Lindarbrekku í Berufirði og þar ætla ábúendur meðal annars að bjóða upp á reykt hreindýrakjöt. Við heyrum í Bergþóru og forvitnumst um þeirra framleiðslu og markaðinn.
Þau Viktoría Hermannsdóttir og Sigurður Helgi Pálmason hafa síðustu misseri skoðað alls konar muni sem tengjast sögu þjóðarinnar í þáttum sem kallast Fyrir alla muni og núna á sunnudag er á dagskrá sérstakur jólaþáttur þar sem þau skoða sögu íslenskra jóla. Hún Viktoría kemur til okkar og segir okkur aðeins frá þættinum og þeim jólahefðum sem þau voru að rannsaka.
Talandi um hefðir þá finnst okkur mörgum gaman að fara á jólatónleika á aðventunni og fá jólaskapið beint í æð í formi ljúfra tóna. Í Gamla bíói hér í Reykjavík fara fram í kvöld öðruvísi jólatónleikar þar sem bláturshljóðfærin verða í forgrunni. Einn af þeim sem þarna koma fram og er meira að segja auglýstur sem leynigestur, heitir Karl Örvarsson og við heyrum í honum hér á eftir.
Við höfum hér í Síðdegisútvarpinu fengið til okkar föstudagsgesti upp á síðkastið, bara rétt til þess að ræða við okkur um daginn og veginn og í dag kemur til okkar rithöfundurinn Páll Valsson sem er jafnframt útgáfustjóri Bjarts bókaútgáfu en Páll m.a. ritað fádæma vinsælar ævisögur um m.a. Vigdísi Finnbogadóttur og Jónas Hallgrímsson. Páll syndir beint úr jólabókaflóðinu til okkar í spjall.
Í dag kom fram í tilkynningu frá Bláa lóninu að hægt verði að heimsækja það á ný á sunnudaginn. Þar kemur fram að ákvörðunin hafi verið tekin í samstarfi við yfirvöld og hefur fyrirtækið unnið náið með þeim á meðan jarðhræringar á svæðinu stóðu yfir. Helgu Árnadóttur verður á línunni og við spyrjum um stöðuna hjá Bláa lóninu.
Það eru þau Hrafnhildur og Kristján Freyr sem stýra þætti dagsins.