Það er síðdegisútvarpið sem heilsar á mánudegi, 20. nóvember. Í hljóðveri sitja þau Guðrún Dís og Kristján Freyr
Vinnum gullið er nafn ráðstefnu sem fram fór í dag á Grand hótel í Reykjavík en þar var fjallað um stöðu og réttindi afreksíþróttafólks. Starfshópur á vegum mennta- og barnamálaráðuneytisins fer með þennan málaflokk og er markmiðið að draga úr allri óvissu er varðar framfærslu og ýmis réttindi afreksíþróttafólks. Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra segir okkur nánar frá því hvernig við vinnum gullið!
Neysluvatnslögnin til Vestmannaeyja er stórskemmd eftir að togveiðiskipið Huginn VE missti niður akkeri sem festist í lögninni á föstudagskvöld. Atvikið telst alvarlegt þar sem vatnslögnin er eina flutningsæð neysluvatns til Vestmannaeyja. Við heyrum í bæjarstjóranum, Írisi Róbertsdóttur.
Sjúkraþjálfarinn Fanney Magnúsdóttir vakti athygli á því í hlaðvarpi á dögunum að vandamál tengdum grindabotninum ætti ekki að vera sama feimnismál og áður. Konur eigi ekki að þurfa að fela öll sín mál en svo væru grindabotnsvandamál einnig vandamál karla. Þeir geti einnig strítt við þvagleka, risvandamál og allskonar vandamál tengt blöðruhálskirtlinum. Fanney kemur til okkar og ræðir við okkur um grindarbotninn.
Jón Þór Víglundsson upplýsingafulltrúi Slysavarnarfélagsins Landsbjargar verður á línunni hjá okkur. En Landsbjörg hefur óskað eftir aðstoð björgunarsveita af öllu landinu til að létta undir með sveitum á suðvesturhorni landsins sem hafa staðið vaktina á Reykjanesskaga vegna jarðhræinganna við Grindavík.
Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International gangsetti á dögunum eina skilvirkustu efnaverksmiðju í heimi sem endurnýtir 150.000 tonn af koltvísýringi á ári. Verksmiðjan er staðsett í Kína og öll framleiðslutækni byggð á íslensku hugviti sem sannreynd var í verksmiðju CRI í Svartsengi. Við heyrum meira frá Ólafi Stefánssyni verkfræðingi hjá CRI um þetta áhugaverða verkefni.
Mikill skortur hefur verið á ADHD lyfinu Elvanse upp á síðkastið og ekki von á fleiri skömmtum af lyfinu hingað til lands í bráð. Formaður lyfjafræðingafélags Íslands sagði í samtali við Morgunblaðið í dag að 7000 manns væru á þessu lyfi hér á landi og að í mörgum tilvikum væri verið að setja fólk beint á þetta lyf í stað þess að prófa önnur lyf áður en að hennar sögn stríðir það algerlega gegn verklagsreglum Sjúkratrygginga Íslands því lyfið sé amfetamínafleiða og sé því eins nálægt amfetamíni og ADHD lyf verða. Vilhjálmur Hjálmarsson formaður ADHD samtakanna er kominn hingað til okkar.