Mikil óvissa ríkir vegna árásar Írana á Ísrael um helgina, en 300 flugskeytum og sprengjudrónum var skotið að ísraelskum skotmörkum. Ekkert þeirra hæfði takmark sitt en það er augljóst að spennan hefur sjaldan verið jafn mikil þegar kemur að samskiptum Ísraels og Írans. Ólöf Ragnarsdóttir, fréttakona kemur til okkar og fer yfir atburðarásina og hvað við getum búist við.
Frumvarp liggur fyrir á Alþingi vegna dánaraðstoðar og sitt sýnist hverjum. Heilbrigðisráðuneytið lét gera könnun á meðal heilbrigðisstarfsfólks þar sem fram kom að rétt yfir helmingur starfsfólksins gæti hugsað sér að veita slíka þjónustu. Formaður Læknafélagsins hefur verið andvígur frumvarpinu og svo birtist grein á Vísi á sunnudag, þar sem stuðningsmenn dánaraðstoðar gagnrýna læknafélagið og segir það skila auðu í umræðunni. Ingrid Kuhlman er einn höfunda greinarinnar þar sem læknafélagið er gagnrýnt og ætlar að ræða við okkur um þetta viðkvæma mál.
Kvikmyndin Á ferð með mömmu, sópaði til sín verðlaunum á Edduverðlaunahátíðinni um helgina. Hilmar Oddsson, leikstjóri myndarinnar, er staddur í Prak í Tékklandi þar sem hann er að frumsýna myndina þar í landi. Hann verður á línunni.
Við ætlum að fræðast um fjallamennskunámi Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu en námið er orðið stórt og margir sem sækja það. Nú óska þeir sem standa að náminu eftir frekara fjármagni til að halda náminu úti þannig að þessu eina námi á Íslandi í útivist og fjallaleiðsögn verði ekki slaufað.
Við ætlum að ræða við Smára Stefánsson kennara við skólann.
Miðbæjarsamtökin á Akranesi vilja fá ráðhús á Akratorg og þau standa fyrir undirskriftasöfnun meðal Akurnesinga. Við ætlum að heyra í Bjarnheiði Hallsdóttur upp á Skaga á eftir.
Það voru líklega allnokkrir sem ráku upp stór augu í morgun þegar þeir lásu um raunir Davíðs Viðarssonar, og má ekki rugla við annan Davíð Viðarsson, sem áður hét Quang Le. Hinn upprunalegi Davíð er skráður faðir tveggja barna Quang Le, og það er ekki sjálfgefið að leiðrétta slíkt, hvort sem um Davíð Viðarsson sé að ræða eða aðra í samfélaginu. Hér hjá okkur er Þyrí Steingrímsdóttir, sem hefur sérhæft sig á sviði sifja- og erfðaréttar og hefur langa og fjölþætta reynslu í rekstri forsjármála sem og ágreiningsmála varðandi fjárskipti hjóna og sambúðarfólks.