Í tvígang hefur verið mótmælt fyrir utan Ríkisútvarpið hér í Efstaleiti vegna þátttöku Ísrael í Eurovision, annars vegar í desember og nú síðast í síðustu viku. Í bæði skiptin hefur Stefán Eiríksson útvarpsstjóri tekið á móti undirskriftarlista sem þúsundir hafa skrifað undir þar sem RÚV er hvatt til að sniðganga keppnina, þar að auki skoraði stjórn Félags tónskálda og textahöfunda á útvarpsstjóra í desember að taka ekki þátt í Eurovision í ár. Staðfest er að Ísrael verður með í keppninni í Malmö í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum evrópskra sjónvarpsstöðva, EBU, sem birt var á vef Sænska sjónvarpsins á dögunum. En hver er staðan á málinu núna, verður Söngvakeppni í ár og mun Íslands taka þátt í Eurovision þrátt fyrir að Ísrael sé með í keppninni. Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri koma til okkar á eftir.
Og í kjölfarið af því að Rúnar Freyr Gíslason framkvæmdastjóri Söngvakeppninnar og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segja okkur af stöðu Söngvakeppninnar og þátttöku Íslands í Eurovision ætlum við að fá viðbrögð Braga Valdimars Skúlasonar formanns Félags tónskálda og textahöfunda en hann verður á línunni hjá okkur.
Janúarráðstefna Festu fer fram þann 25.janúar næstkomandi í Hörpu undir yfirskriftinni, Við skrifum mannkynssöguna, sem vísar í þau tímamót sem við stöndum frammi fyrir í loftslagsmálum og þær breytingar sem eru að eiga sér stað í starfsemi fyrirtækja þegar kemur að sjálfbærni. Markmiðið er að eiga samtal um þær áskoranir sem við mannkynið stöndum frammi fyrir í tengslum við áhrif loftslagsbreytinga og hvernig hægt er að sporna við þeim með nýrri tækni og nýsköpun. Elva Rakel Jónsdóttir framkvæmdastjóri Festu kemur til okkar á eftir og segir okkur betur frá.
Við fáum til okkar hvítlauksbændur úr Kópavogi þau Þórunn Ólafsdóttur og Harald Guðjónsson en þau hafa sannað það að það er hægt að rækta hvítlauk hér á landi. Framleiðslan er lífræn og er í blússandi vexti. Við fáum að heyra sögu þeirra hér í þættinum.
Hvað í ósköpunum er Djúptæknikjarni? Það eina sem vitum er að það á að hýsa fjölmörg svið vísinda lista og hönnunar ásamt nýsköpunar- og sprotafyrirtækum. við fáum að heyra meira af þessu spennandi verkefni í þættinum og til okkar kemur maður sem heitir Hans Guttormur og segir okkur allt um það.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Íslenska ættleiðingu um þróun verklags um samþætta þjónustu við börn sem ættleidd eru til Íslands. Ásmundur Einar Daðason mennta og barnamálaráðherra og Elísabet Hrund Salvarsdóttir framkvæmdastjóri Íslenskrar ættleiðingar undirrituðu samning þess efnis og á línunni hjá okkur er Elísabet Hrund.