Matsmenn á vegum Náttúruhamfaratryggingar Íslands hafa unnið við matsgerðir á fasteignum í Grindavík að undanförnu. Fyrir helgi var búið að skoða 260 húseignir í Grindavík en 115 biðu tjónaskoðunar. Vegna eldgossins sem hófst á sunnudaginn boðuðu Náttúru-hamfaratryggingar Íslands að matsgerðir myndu tefjast. En hver eru næstu skref stofnunarinnar nú þegar að kvikugangurinn í Grindavík heldur áfram að breikka og síga í nýja sigdalnum og fyrir norðan bæinn. Hulda Ragnheiður Árnadóttir forstjóri Náttúruhamfaratryggingar Íslands verður á línunni hjá okkur á eftir.
Sagt var frá því í færeyskum miðlum í gær að Rauði krossinn þarlendis hafi hrint af stað söfnun fyrir Grindvíkinga en frá þessu var greint í færeyska vefmiðlinum in.fo. Þetta var gert í kjölfar þess að Rauði krossinn á Íslandi hóf tímabundna söfnun til aðstoðar þeim sem hafa orðið fyrir áhrifum eldgossins í Grindavík og Færeyingar voru ekki lengi að bregðast við í sínum stuðningi. Ekki er þetta í fyrsta skipti sem frændur okkar í Færeyjum leggja hendur á plóg að sýna íslensku þjóðinni samhug. Við heyrum í Oddi Frey Þorsteinssyn, kynningar- og fjölmiðlafulltrúa Rauða krossins hér í Reykjavík um söfnunina og frændur okkar Færeyinga.
Veðurstofan spáir talsverðri snjókomu í nótt og fram á morgundaginn á sunnan- og vestanverðu landinu. Viðbúið er að akstursskilyrði versni og á nokkrum stöðum geta samgöngur raskast. Við heyrum í Hjalta Jóhannesi Guðmundssyni hjá Reykavíkurborg og spyrjum hvort allir séu klárir í bátana og hvernig snjóhreinsun verður háttað í fyrramálið.
Íslenska karlalandsliðið í handbolta náði sæti í milliriðli EM í gær þrátt fyrir að tapa illa sinni viðureign á móti Ungverjalandi í München. Við taka nú erfiðir leikir á móti alræmdum handboltaþjóðum, eins og Þýskalandi, Frakklandi og Króatíu meðal annarra. En milliriðillinn fer fram í Köln og þangað fara nú strákarnir okkar rétt eins og okkar fólk í Sérsveitinni, stuðningsmannasveit íslenska landsliðsins. Þau voru stödd í lestinni í átt að Köln áðan og við ætlum að heyra í Kjartani Vídó Ólafssyni, markaðsstjóra HSÍ sem er með þeim í ferð og spyrja hvort liðið og stuðningsfólk sé ekki að ná vopnum sínum aftur eftir ósigurinn í gær.
Sveitastjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps samþykkti í síðustu viku að samhliða forsetakosningunum í byrjun júní að íbúar kjósi einnig um hvort breyta eigi nafni sveitarfélagsins og hvert það nafn eigi að vera. Boða á til íbúafundar í mars þar sem málið verður kynnt og rætt en Skeiðahreppur og Gnúpverjahreppur sameinuðust árið 2002. Við ætlum að heyra í Haraldi Þór Jónssyni oddvita hreppsins á eftir og spyrja hann nánar út í þetta allt saman.
En við byrjum á því að hringja út í heim, beint í Björn okkar Malmquist sem segir okkur hvað ber hæst í Brussel þessi dægrin.
Tónlist frá útsendingarlogg 2024-01-18
KRASSASIG - Einn Dag Í Einu.
Ásgeir Trausti Einarsson - Part of me.
RAVEN & RÚN - Handan við hafið.
SSSÓL - Síðan Hittumst Við Aftur.
Police, The - Walking on the moon.
NÝDÖNSK - Lærðu Að Ljúga.
FRIÐRIK ÓMAR & JÓGVAN - Rómeo og Júlía.
Sheeran, Ed - American Town.
DJ Ötzi - Sweet Caroline.
Bryan, Zach, Musgraves, Kacey - I Remember Everything.
HIPSUMHAPS - Á hnjánum.
HILDUR - I'll Walk With You.