Bæði lið Íslands í fullorðinsflokki eru komin í úrslit á EM í hópfimleikum í Aserbaísjan. Kvennaliðið varð í öðru sæti, hársbreidd á eftir sænska liðinu. Við hringdum til Baku og heyrðum í Andreu Sif Pétursdóttur fyrirliða.
Þing Hringborðs Norðurslóða - Arctic Circle hófst í Hörpu í morgun og stendur til laugardagskvölds. Hátt í 2500 manns hafa þegar boðað komu sína á þingið.
Yfir 700 ræðumenn flytja erindi í rúmlega 250 málstofum. Hringborðið er stærsta samkoma heims um málefni Norðurslóða. Ásdis Eva Ólafsdóttir er forstjóri yfir Arctic Circle og hún var á línunni.
Nú standa yfir tökur á Hollywoodmynd um leiðtogafundinn í Höfða en þar hittust Ronald Reagan og Mikhaíl Gorbatsjev árið 1986. Framleiðslufyrirtækið Pegasus hefur leigt Höfða, sem er í eigu Reykjavíkurborgar, til 10. nóvember fyrir tökur myndarinnar. Við forvitnuðumst um verkefnið og töluðum Ella Cassata eiganda Pegasus.
Fjárfestingarsjóðurinn Frumtak Ventures hefur ásamt hópi fjárfesta fjárfest fyrir samtals 330 milljónir króna í íslenska nýsköpunarfyrirtækinu Moombix. Því er ætlað að umbylta tónlistarkennslu á netinu og tengja saman nemendur, kennara og tónlistarfólk um allan heim.
Stofnandi félagsins, Margrét Júlíana Sigurðardóttir, kom til okkar í Síðdegisútvarpið í dag og segir okkur allt um Moombix.
Við heyrðum líka hvað verður boðið upp á í þættinum Endurtekið í kvöld. En í þáttunum er fjallað um hringrásarhagkerfið, þar sem hlutir og hráefni fara í hring og eins manns rusl verður annars fjársjóður Sigríður Halldórsdóttir og Freyr Eyjólfsson komu til okkar og sögðu frá.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tilkynnti þingrof og alþingiskosningar á Alþingi í morgun og fara alþingiskosningar fram 30. nóvember. Klukkan sex verður síðan ríkisráðsfundur og þess á milli stígur fjöldi fólks fram og tilkynnir um framboð fyrir hina og þessa flokka. Höskuldur Kári Schram stendur vaktina á fréttastofunni og hann kom til okkar og sagði okkur helstu tíðindi dagsins.