Í dag geta áhugasamir um fjallahjólamennsku kynnt sér sportið þegar Hjóladeild Aftureldingar verður með kynningu í Íþróttamiðstöðinni að Varmá og svo verður hjólað eftir stígum um mosfelsku Alpanna eins og þau kalla það. Okkur í Síðdegisútvarpinu langar að forvitnast um þetta sport og hringdum því í Elías Níelsson en hann er einn af stofnendum hjóladeildarinnar og hefur verið ábyrgur fyrir allskonar þjálfun og heilsurækt í Mosfellsbæ árum saman.
Það er ekki á hverjum degi sem tækifæri gefst til að ræða við hvítlauksbónda, en það gerðum við í dag þegar Þórunn Ólafsdóttir var á línunni. Við forvitnuðumst um þennan búskap á Íslandi og í leiðinni ræddum uppskerubrest sem hrjáir hvítlauksbændur á Íslandi.
Aðalbjörn Tryggvason, aðalsprauta hljómsveitarinnar Sólstafir, er enn eina ferðina að fara að spila undir kvikmyndinni Hrafninn flýgur ásamt hljómsveit sinni. Í ár er það gert í tilefni 40 ára afmæli myndarinnar. Aðalbjörn eða Addi eins og hann er oftast kallaður kom til okkar til að ræða þetta meistaraverk íslenskrar kvikmyndagerðar.
Töluvert hefur borið á kvikmyndaumfjöllun í Síðdegisútvarpinu undanfarið enda er RIFF í gangi. Þess vegna er ekki úr vegi að rifja upp hið magnaða Stjörnubíó á Laugavegi sem hefði orðið 75 ára í dag væri það enn starfandi.
Framundan er bleikur október eins og ár hvert þar sem vakin er athygli á forvörnum gegn Krabbameini. Og í ár eru 25 ár frá því að Bleika slaufan varð til. En Bleika slaufan er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélagsins tileinkað baráttunni gegn krabbameinum hjá konum. Með því að kaupa og bera Bleiku slaufuna sýnum við samstöðu í verki með málstaðnum. Þær Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélagsins og Sigga Soffía hönnuður Bleiku slaufunnar í ár, komu til okkar í lok þáttar.
En við byrjuðum á þessu.
Í tilefni af Gulum september verður fólki smalað saman í sal Langholtskirkju til að prjóna Litlu gulu peysuna. Peysan er hönnuð af Eddu Lilju Guðmundsdóttur en hún gaf Lífsbrú - Miðstöð sjálfsvígsforvarna uppskriftina. Edda sjálf verður á staðnum klukkan 8 í kvöld en var svo góð að koma við í Síðdegisútvarpinu fyrst.
Lagalisti:
Snorri Helgason - Aron.
PETER BJÖRN & JOHN - Young Folks.
U2 - Angel Of Harlem.
AMY WINEHOUSE - You Know I'm No Good.
Sólstafir - Hún andar.
HJÁLMAR - Manstu.
Benson Boone - Beautiful Things.
Laddi - Hvítlaukurinn.
THE VERVE - Lucky Man.
Lada Sport - Ég þerra tárin.
KT TUNSTALL - Suddenly I See.
Lipa, Dua - Houdini.
ARCTIC MONKEYS - Do I Wanna Know?.