Mikil eftirspurn er eftir ráðgjafa og upplýsingaþjónustu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess en úrræðinu var komið á í fyrra í tengslum við aðgerðaáætlunina Gott að eldast.
Ásta Kristín Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi hóf störf þann 1. september í fyrra og síðan þá hafa nærri 500 manns leitað eftir upplýsingum og ráðgjöf. Ásta Kristín kom til okkar á og sagði frá.
Vilhelm Anton Jónsson listmálari, tónlistarmaður, sjónvarpsmaður og spurningahöfundur leit til okkar í Síðdegisútvarpið og sagði okkur frá ákvörðunina að setjast aftur á skólabekk og yfirtöku sinni á Keiluhöllinni.
Það bárust af því fréttir að ein verslun til viðbótar hefði ákveðið að hætta að taka á móti reiðufé og ástæðan væri sú að of mikill tími og kostnaður fylgdi því að taka við reiðufé. En hvert stefnum við í þessum efnum verður það þannig í framtíðinni að okkur muni reynast ómögulegt að borga með seðlum og mynt ? Því svaraði Björn Berg Gunnarsson fjármálaráðgjafi.
Ingi Þór Ingibergsson dagskrárgerðarmaður hefur verið duglegur á Instagram að setja inn alls kyns pælingar og tilraunir. Nýjasta tilraunin er fengin að láni frá manni sem sat við hlið Inga á veitingastað á dögunum og sá hafði heyrt af fólki sem gerði tilraunir með að sjóða bananahýði í vatni og drekka síðan. Þetta átti að gera það að verkum að svefninn yrði dýpri og betri og ekki skemmdi það fyrir að draumarnir urðu sterkari. Við hringdum Inga og fengum hann til þess að segja okkur frá þessari óvenjulegu tilraun.
Er hægt að byggja hús úr rusli? En hampsteypu eða hráefnum sem voru einu sinni í öðru húsi? Eru gömul húsgögn jafngóð og ný? Þessum spurningum verður svarað í Endurtekið í kvöld, umsjónamenn þáttanna, Freyr Eyjólfsson og Sigríður Halldórsdóttir mættu til okkar.
Oddur Þórðarsson fréttamaður kom til okkar með það nýjasta utan úr heimi.