Hættustig almannavarna vegna snjóflóða er í gildi í þremur bæjum á Austfjörðum. Þrjú snjóflóð féllu í Neskaupstað snemma í morgun. Ólíkar tilfinningar vakna hjá Norðfirðingum í kjölfar flóðsins. Sum muna Norðfirðingar muna sumir eftir mannskæðum snjóflóðum þar í bænum fyrir tæpum 50 árum.
Snjóflóðin í Neskaupstað féllu utan við varnargarða bæjarins. Viðbætur eru á teikniborðinu en stranda á fjármagni.
Karlmaður frá Rúmeníu hefur stefnt íslenska ríkinu og krefst fimm milljóna í bætur. Hann kom til Íslands til að vinna við þakviðgerðir með tengdaföður sínum en var eftirlýstur af lögreglu og bendlaður við glæpagengi.
Stúlka á táningsaldri vopnuð tveimur rifflum og skammbyssu varð sex að bana í grunnskóla í Nashville í Bandaríkjunum í dag. Nærri níutíu árásir hafa verið gerðar í bandarískum grunnskólum það sem af er ári.
Umdeildu frumvarpi Ísraelsstjórnar var mótmælt harkalega í dag. Allsherjarverkfall hófst í landinu og sendiráðum var lokað. Frumvarpið átti að færa stjórnvöldum aukin völd yfir dómstólum. Afgreiðslu þess var frestað síðdegis.
----
Í morgun féllu snjóflóð í Neskaupstað. Blessunarlega varð ekki manntjón í flóðunum en nokkrir hlutu minni háttar áverka þegar flóð lenti á fjölbýlishúsi í Starmýri. Mikil ofankoma og vindur er fyrir austan og mikil snjóflóðahætta víða á Austfjörðum, til að mynda á Seyðisfirði, Eskifirði og víðar. Hús voru rýmd í Neskaupstað og Eskifirði. Flóðin sem lentu í byggð féllu úr Nesgili og Bakkagili en stór flóð hafa áður fallið úr þessum giljum. Norðfirðingar hafa áður þurft að takast á við náttúruöflin. Alls hafa 17 manns látist í snjóflóðum í Neskaupstað í þremur flóðum, árin 1885, 1974 og 1978. Árið 1974 varð mannskæðasta flóðið í bænum þar sem 12 manns fórust og fjórtán var bjargað, ýmist af eigin rammleik eða voru grafin upp. Slík sár gróa seint og sambýlið við náttúruna er samofið í huga Norðfirðinga. Í hádegisfréttum var sagt frá því að í fjöldahjálparstöð sem opnuð var í Egilsbúð sé meðal annars fólk sem man eftir flóðunum 1974 og það ýfi upp gömul sár að vera komin aftur á þann stað við svona aðstæður.
"Atvinnurekendur og launþegar um gjörvallt Ísraelsríki. Komum í veg fyrir breytingar á lögum um dómstóla. Stöðvum þetta brjálæði," sagði Arnon Bar-David, formaður Histadrut, landsambands verkalýðsfélaga, þegar hann tilkynnti í morgun að allsherjarverkfall væri brostið á í landinu. Fljótlega tilkynntu fleiri stéttarfélög um að þau hefðu lagt niður störf, þar á meðal landssamband ísraelskra hjúkrunarfræðinga. Frá deginum í dag ætla þeir einungis að sinna neyðartilvik