Málefni barna í vanda, Ísraelar rjúfa vopnahlé og grásleppukvóti
Spegillinn fjallaði í gær ítarlega um meðferðarheimili fyrir börn sem til stóð að reisa í Garðabæ. Þar kom meðal annars fram að Barna- og fjölskyldustofa hefði gefist upp á biðinni og viljað að húsið yrði reist í Mosfellsbæ. Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, sem hefur mikla reynslu af þessum málum, segir umfjöllunina í gær hafa eiginlega staðfest tilfinningu sem hún hafi haft lengi. Freyr Gígja Gunnarsson ræðir við hana.
„Stríðið 'um frið fyrir Netanyahu' er byrjað,“ sagði Tamir Pardo, fyrrverandi yfirmaður ísraelsku leyniþjónustunnar Mossad á fjölmennum mótmælafundi í Tel Aviv í gær. Með þessu vísar Pardo í útbreidda skoðun pólitískra andstæðinga forsætisráðherrans Benjamíns Netanyahus, sem saka hann um að skeyta í engu um líf þeirra gísla sem enn eru í haldi Hamas, heldur hugsa bara um eigin pólitísku framtíð með því að rjúfa vopnahléið og hefja aftur mannskæðar loftárásir á Gaza. Pardo er ekki einn um þessa skoðun, eins og Ævar Örn Jósepsson fjallar um.
Í upphafi árs var gefinn út grásleppukvóti í fyrsta sinn. Lögin sem samþykkt voru í fyrra áttu að auka hagræði í greininni og tryggja öryggi sjómanna, en líka að koma í veg fyrir samþjöppun aflaheimilda á fárra hendur. Sjávarútvegurinn hefur enn ýmsar spurningar um framkvæmdina og hver hagnast á nýja kvótanum. Gréta Sigríður Einarsdóttir kannaði málið.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Mark Eldred
Frumflutt
19. mars 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.